Föstudagur 17. nóvember 2000

322. tbl. 4. árg.

Það var mikið gert úr því í fréttum í vikunni hver yrði kjörinn forseti ASÍ. Ýmsum þótti undarlegt að Ari Skúlason hagfræðingur og framkvæmdastjóri ASÍ færi fram til formanns og bæri við þeirri ástæðu að framtaksleysi hefði plagað samtökin undanfarin ár. Þetta er þó ekki svo undarlegt þegar það er haft í huga að Ari hefur þurft að eyða drjúgum tíma í ferðalög til Íslands frá Brussel. Það væri allt annað mál ef framkvæmdastjórinn hefði fengið að vera í friði í Brussel.

Ýmislegt kom til tals á þingi ASÍ. Meðal annars hvort skylda eigi launafólk til aðildar að verkalýðsfélögum. Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins er meðal þeirra sem er andvígur skylduaðild. „Enda vinnur skylduaðild gegn okkur, ekki með. Alltof margir verkalýðsforingjar hafa komist upp með í skjóli skylduaðildar að gera lítið fyrir félagsmenn sína,“ sagði Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins í viðtali við Morgunblaðið í gær. Ýmsir launamenn sem neyddir eru til að greiða félagsgjöld sem fara til reksturs skrifstofu ASÍ hljóta að vera óánægðir með að Ari Skúlason skuli hafa lagt á sig dýrar ferðir til Íslands þegar hann gat allt eins dvalið í Brussel . En þeir geta ekki gengið úr verkalýðsfélögum sínum og í önnur.