Fimmtudagur 16. nóvember 2000

321. tbl. 4. árg.

Í leiðara Morgunblaðsins í fyrradag var lýst áhyggjum yfir því að næsti forseti Bandaríkjanna tæki við skertu umboði frá klofinni þjóð vegna þess hve mjótt er á munum í kosninguum um embættið. Morgunblaðið hefur sjálfsagt lengra pólitískt minni en flestir aðrir en man þó ekki eftir hinum vinsæla forseta John F. Kennedy sem komst til valda, ekki aðeins í tvísýnum kosningum heldur höfðu stuðningsmenn hans rangt við í Chicago og Texas, þegar hann atti kappi við Nixon fyrir 40 árum.
Ef botn fæst í kosningarnar vestra þegar utankjörfundaratkvæði hafa borist á föstudaginn kemur mun líða ótrúlega stuttur tími þar til óvissa síðustu daga verður að óljósri neðanmálsgrein í sögunni. Fólk hefur til allrar hamingju um fleira og merkilegra að hugsa en stjórnmál og í Bandaríkjunum hefur almenningur lengi vel haft meiri frið fyrir stjórnmálamönnum en í Evrópu. Þetta kemur m.a. fram í lítilli kjörsókn sem er ýmsum evrópskum menntamönnum mikið hneykslunarefni.

Það færi vel á því að valdatíð Clintons lyki með því að demókratar hefðu hvorki meirihluta í fulltrúa- eða öldungadeild Bandaríkjaþings og misstu forsetaembættið einnig. En það er alls óvíst að svo fari. Demókratar virðast tilbúnir til að beita öllum brögðum til að hagræða kosningaúrslitunum sér í vil. Fyrir þeim fer kosningastjóri Gores, William Daley, sonur þess manns sem átti mestan þátt í svindlinu í Chicago árið 1960. Delay sagði strax daginn eftir kosningarnar: „Ef vilji kjósenda fær að ráða verður Al Gore lýstur sigurvegari í Flórída og þar með næsti forseti Bandaríkjanna.“ Eftir endurtalningu atkvæða kom hins vegar í ljós að vilji kjósenda dugar ekki og því hafa demókratar leitað eftir vilja dómstóla.

Og það er öllum brögðum beitt og allir sótraftar á sjó dregnir. Jesse Jackson var ekki lengi að koma fram með ásakanir um að fólki úr minnihlutahópum hefði verið meinað um að kjósa en blökkumenn eru 14% íbúa Flórída en voru 16% þeirra sem kusu. Kjörseðillinn í West Palm Beach sem demókratar kvarta nú yfir var útbúinn af kjörnefnd þar sem demókratar eru í meirihluta, auglýstur rækilega m.a. með því að senda öllum skráðum kjósendum sýnishorn og kjósendur áttu kost á að fá nýjan seðil ef þeir gerðu mistök. Samskonar seðill er notaður í Cook sýslu, þar sem nefndur Daley hefur kosið án vandkvæða. Ógild atkvæði í West Palm Beach voru 15 þúsund í kosningum fyrir fjórum árum en 19 þúsund nú og 26 þúsund kjósendur gerðu ógilt í Duval sýslu en þar hefur fylgi við republikana verið mikið. Það hlýtur að teljast með ólíkindum að án þess að nokkur dæmi hafi komið fram um svindl við kosningarnar skuli demókratar heimta þriðju talninguna. Þriðja talningin á ekki að fara fram í sjálfvirkri talningarvél eins og allar aðrar talningar í Flórída heldur eiga talningarmenn að skoða hvert atkvæði. Við það vonast demókratar til að færri atkvæði verði talin ógild. Og til að gæta sanngirni – að sínum hætti – sækja þeir það stíft að talið verði í höndunum í nokkrum sýslum þar sem demókratar hafa mikið fylgi.

Framhaldsskólakennarar reyna með ýmsum hætti að sannfæra landslýð um að þeim beri að fá þær launahækkanir sem þeir krefjast. Sumir framhaldsskólanemendur styðja við bakið á kennurum sínum og telja árangursríkt að benda á hversu brýnt er að kennsla falli ekki niður. Eitt af því sem nemendurnir hafa gert er að senda fjölmiðlum eftirfarandi bréf. Það er birt hér óbreytt. Við það er engu að bæta:

ég vill byðja ykkur um að koma eftir farandi frétta tilkynningu á framfæri :

„Fyrirhuguð eru setumótmæli á framhaldskólanema og annara stuðningsmanna framhaldsskólakennara í fjármálaráðuneytinu(bakvið Arnarhól)miðvikudaginn 15.Nóv klukkan 14:00 . Allir áhugasamir stuðningsmenn kennara mæti klukkan 14:00 við inngang fjármálaráðuneitisins. Þess verður krafist að ríkið samþyki kröfur kennara!!! -Undirbúningshópurinn.“

Og með birtingu þessa ljómandi bréfs er lokið þátttöku Vefþjóðviljans í degi íslenskrar tungu að þessu sinni.