Miðvikudagur 15. nóvember 2000

320. tbl. 4. árg.

Það er erfitt að gera upp á milli margra frambærilegra keppinauta, en þó má líklega með réttu halda því fram að frekasti hópur þjóðfélagsins sé sá hópur sem almennt er kallaður stúdentar. Þetta er auðvitað ósanngjarnt gagnvart þeim stúdentum sem ekki eru að falla í yfirlið vegna frekju, en verður þeim ef til vill hvatning til að hirta þá sem frekastir eru. Einn fulltrúi þessara freku stúdenta skrifaði grein í Morgunblaðið í gær og sagði frá því að stúdentar hygðust lesa á þingpöllum vegna þess að lesborð væru of fá í Háskólanum. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að það væri „sjálfsögð skylda ríkisins“ að vinna bug á því sem hann taldi mikið aðstöðuleysi Háskólans. Þessi liðsmaður Röskvu og sjálfskipaði talsmaður stúdenta lét frá sér fara að „aðstöðuvandi“ sé orðinn „geigvænlegur“ í Háskólanum. Léttvægari mega lýsingarnar ekki vera þegar um slíka dauðans alvöru er að ræða.

Ef til vill trúir einhver slíkum sjálfskipuðum talsmönnum stúdenta og heldur að allt stefni í óefni í Háskólanum og að ríkið – með öðrum orðum skattgreiðendur – láti ekkert til skólans svo heitið geti. Og hver veit nema þeir séu líka til sem halda að stúdentar séu almennt svo hart keyrðir að þeir hafi ekki aðgang að þaki til að lesa undir nema ríkið útvegi það, hvað þá að stúdentar geti fundið laslegt borð að setjast við eða stólbrík að tylla sér á. Já, ef til vill trúir því einhver að stúdentar séu á götunni og geti enga aðstöðu fundið sér til að stunda nám sitt nema skattgreiðendur útvegi hana og sjái til þess að alltaf sé nóg til af auðum borðum í Háskólanum hvort sem er um mitt sumar eða rétt fyrir próf. Og ef til vill trúir því einhver líka að það sé heilög skylda ríkisins að útvega stúdentum alla þá aðstöðu sem sjálfskipuðum fulltrúum þeirra dettur í hug að fara fram á. Það má vera að einhver trúi þessu, en Vef-Þjóðviljinn er ekki þar á meðal.

Staðreyndin er auðvitað sú að afar vel er búið að stúdentum hér á landi. Skattgreiðendur eru látnir greiða nám stúdenta, niðurgreiða námslán þeirra verulega og útvega þeim auk þess mjög góða lesaðstöðu, tölvustofur, bókasafn og svo mætti áfram telja. Það mætti til dæmis telja það til að skattgreiðendur hafa malbikað bílastæði fyrir hundruð bíla stúdenta svo þeir geti lagt fyrir utan skólann. Bílastæðin eru að vísu of fá, enda stúdentar illa haldnir fjárhagslega og hafa ekki efni á að ganga eða hjóla í skólann. Bílastæðaskorturinn er auðvitað líka hluti af hinum „geigvænlega aðstöðuvanda“ stúdenta.