Þriðjudagur 14. nóvember 2000

319. tbl. 4. árg.

Í nýjasta tölublaði tímaritsins Lifandi vísinda er sagt frá fyrirhugaðri smíði skipsins Freedom sem verður fjórfalt stærra en stærsta skipið sem siglir nú um höfin. Skipið verður svo stórt að um borð verður bæði flugvöllur, járnbrautarlest og höfn! Gert er ráð fyrir að 50 þúsund íbúar verði í skipinu og það mun haga seglum eftir vindi og ætíð vera þar á hnettinum sem veðrið er best. Þetta er að vafalaust lokkandi fyrir marga. Hitt þó ekki síðra að hér verður um svonefnda skattaparadís að ræða. Þeir sem vilja panta sé pláss í skattleysinu geta gert það á heimasíðu útgerðarfélagsins og hefur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík heitið þeim borgarbúum sem tryggja sér skipsrúm sérstökum afslætti. Þeir munu ekki þurfa að leggja fram fé í bæjarútgerð víkingaskipsins Íslendings, en sem kunnugt er gerir nýleg tillaga borgarstjórnarflokksins ráð fyrir því að borgarbúar hefji útgerð Íslendings hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var einmitt rætt um nauðsyn þess að ríki Evrópu slaki á í skattheimtu ef þau vilji ekki missa fólk og fjárfestingar annað. Dæmi um að menn flytji kennitölu fyrirtækja sinna og jafnvel sjálfa sig líka til skattaparadísa eru sjálfsagt jafnalgeng hér eins og annars staðar. Ríkisstjórnin gortar mjög af miklum fjárlagaafgangi þrátt fyrir að hún hafi gert sitt til að minnka hann með auknum útgjöldum á síðustu árum. Afganginn má að sjálfsögðu þakka miklum hagvexti undanfarinna ára en skattalækkun á fyrirtæki fyrir nokkrum árum átti án efa sinn þátt í því að hjól atvinnulífsins fóru að snúast á fullu á nýjan leik. Til að tryggja áframhaldandi grósku í efnahagslífinu nú þegar það er farið á hægja á sér á nýjan leik liggur beinast við að lækka skatta og skila fjárlagaafganginum þannig til fólksins sem vann fyrir honum.

Fjármálaráðherra hlýtur einnig að átta sig á því hvaða áhrif það hefur á þá sem mest gera út á framlög úr ríkissjóði ef seðlabúntunum sem ríkisstjórninni tekst ekki sjálfri að koma í lóg er sífellt veifað framan í þessa aðila.