Mánudagur 13. nóvember 2000

318. tbl. 4. árg.

„Ýtt út í kuldann“ er forsíðufyrirsögn helgarblaðs DV. Blaðið fjallar þar um 3. bindi af 28 í ritröðinni Ævi Steingríms Hermannssonar. Vefþjóðviljinn hefur ekki lesið þetta nýjasta stórvirki en ef marka má DV þá hefur Halldór Ásgrímsson reynst Steingrími hinn versti ódrengur. Virðist mega ætla að Halldór hafi haft forystu um að það taka Steingrím, sem þá var orðinn áhrifalítill stjórnarandstöðuþingmaður, og ýta honum „út í kuldann“ og gera hann að – bankastjóra Seðlabanka Íslands.

En ef þetta er rétt, þá er líklega fundin skýring á því af hverju bankastjórinn Steingrímur þurfti að sitja linnulitlar „umhverfisráðstefnur“ á helstu sólarparadísum heimsins: Það hefur verið svona kalt í seðlabankanum.

Meira af helgarblöðunum. Í helgarblaði Dags-Tímans er viðtal við Pál Magnússon fyrrverandi fréttastjóra Stöðvar 2. Þar er hann spurður hvert hafi nú verið hafi nú verið „eftirminnilegasta skúbbið á ferlinum“. Páll svarar því greiðlega: „Það var á Vísi þegar ég vann í sumarafleysingum vorið 1979. Ég var ekki settur í mjög merkileg verkefni enda ekki með langa reynslu í blaðamennsku. Einn morgun hringir í mig maður og segir mér að allir blaðamenn og fréttamenn séu á villigötum, það sé verið að mynda allt aðra ríkisstjórn í landinu en flestir haldi. Gunnar Thoroddsen sé að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn og mynda ríkisstjórn með hluta þingflokksins. Ég hringdi eins og óður maður um allar koppagrundir og fékk þetta staðfest. Hljóp svo með tíðindin til ritstjóranna og heimtaði forsíðuna. Þeir höfðu ekki mikla trú á þessum nýbyrjaða teiknimyndablaðamanni en sannfærðust þó. Þetta var fyrsta skúbbið mitt og kannski þess vegna það eftirminnilegasta.“

Já þetta var fyrsta skúbb Páls og ekki undarlegt að honum sé það eftirminnilegt. Reyndar myndu nú flestir vera stoltir af því að hafa sagt frá væntanlegri ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen um vorið 1979. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen var mynduð í febrúar 1980.