Helgarsprokið 12. nóvember 2000

317. tbl. 4. árg.

Matthildingar komu saman í Kastljósi Ríkissjónvarpsins síðast liðið föstudagskvöld til að skemmta þáttarstjórnendum og öðrum landsmönnum. Þetta var nokkuð vel heppnuð „endurkoma“ og greinilegt að þeir eru enn við sama heygarðshornið að ýmsu leyti þó nokkur ár hafi bæst við frá því þeir voru saman í útvarpinu. Tvennt má nefna sem fram kom í þættinum og mætti verða fólki til umhugsunar. Annað var ábending um að þeir sem vildu grínast með svipuðum hætti í dag og gert var í Útvarpi Matthildi eiga við þann vanda að etja að færri heilögum kúm er fyrir að fara í dag en þá var. Þá voru allir hlutir með öðrum hætti en nú er og margt afkáralegt sem hægt var að gera gys að. Ótrúleg breyting hefur orðið á þjóðfélaginu síðasta aldarfjórðunginn og raunar aðallega síðustu tíu til fimmtán árin.

Fyrir aldarfjórðungi mátti svo til ekkert á Íslandi og Íslendingar virtust halda að þetta væri eðlilegur hlutur. Svo fóru þeir að skoða sólina í útlöndum og kynna sér lítillega ástandið erlendis og þá fór mönnum að hætta að þykja gaman að fá ekki að kaupa bjór nema af sjómönnum niðri á höfn eða af flugfreyjum. Mönnum þótti líka smám saman kyndugt að þurfa að sækja um leyfi til að kaupa gjaldeyri, fá aðeins lítinn skammt sem dugði engan veginn og verða svo að kaupa afganginn á svarta markaðnum. Þetta minnti um of á ríkin austan járntjalds. Svo kom loks að því um miðjan síðasta áratug að menn gátu fengið sér krítarkort þó þeir væru ekki forstjórar stærstu fyrirtækja landsins og gátu þá farið að haga sér eins og annað fólk í útlöndum. Um svipað leyti hættu menn að þurfa að velja á milli þess að hafa slökkt á útvarpinu eða hlusta á útsendingar ríkisins. Menn hafa líka getað farið að fjárfesta í útlöndum og eiga viðskipti við þau á eðlilegum forsendum. Allt eru þetta dæmi um að margt hefur breyst og hugarfar fólks er orðið allt annað en var. Þó eru enn dæmi um að sumt fólk er fast í bannhugarfarinu. Enn er fullorðnu fólki bannað að kýla hvert annað ef fylgt er tilteknum reglum hnefaleika. Ekkert er litið til þess að báðir aðilar hnefaleikakeppni þurfa að samþykkja að taka þátt til að leikur hefjist. Eins er fullorðnu fólki bannað að nota tilteknar gerðir fíkniefna og margt fleira mætti nefna sem væntanlega mun þykja skrýtið í framtíðinni.

Einn Matthildinganna nefndi einmitt eitt af því sem líklega mun þykja skrýtið í framtíðinni og það er byggðastefnan sem rekin hefur verið hér á landi síðustu ár og áratugi. Hrafn Gunnlaugsson sagði réttilega að það væri framfaramerki ef byggð þjappaðist saman á einum stað. Þetta er sú þróun sem fylgt hefur þeim miklu framförum sem orðið hafa síðustu tvær aldir eða svo. Nútímasamfélag gerir ekki kröfur um að hver landskiki sé fullnýttur og engin ástæða er til að ríkið haldi fólki í hinum dreifðu byggðum landsins þegar kraftar þess geta nýst betur annars staðar. Mikilvægt er að reyna ekki að koma í veg fyrir eðlilega byggðaþróun, því allar slíkar tilraunir eru til þess eins fallnar að gera alla landsmenn fátækari, ekki síst þá sem í hinum óarðbæru byggðum búa. Staðreyndin er sú að flest fólk vill gjarnan vera þar sem annað fólk er fyrir og engin ástæða er til að greiða fólki fyrir að velja þann kost sem það undir eðlilegum kringumstæðum kysi síður. Þetta þýðir ekki að allar sveitir landsins leggist af, en við því má búast að byggð leggist smám saman af sums staðar þar sem enn er byggð. Þetta er eðlileg þróun sem engin ástæða er að hafa áhyggjur af eða fella tár yfir.