Laugardagur 11. nóvember 2000

316. tbl. 4. árg.

Í Bandaríkjunum var kosið um fleira en Bush og Gore þó athyglin sé öll á þeim, sér í lagi eftir að talningu lauk ekki og reynt er að breyta reglum kosninganna eftir á. Í Alaska var til dæmis kosið um hvort kannabisefni skyldu aftur gerð lögleg. Í tillögunni sem greidd voru atkvæði um segir að með samþykkt hennar yrði refsilaust fyrir einstaklinga yfir 18 ára aldri að nota maríúana eða önnur kannabisefni. Mikill áróður hefur verið rekinn undanfarin ár og áratugi fyrir því að lausn á vanda sem fylgt getur öðrum fíkniefnum en áfengi og tóbaki felist í því að stunda „stríð gegn fíkniefnum“. Þetta stríð hefur ekki unnist enn og mun aldrei vinnast en er þó háð með miklum tilkostnaði um allan heim. Sá kostnaður kemur meðal annars fram í yfirfullum fangelsum, ofbeldisglæpum og ránum sem sleppa mætti við ef friði yrði komið á í þessu stríði.

Allur þessi áróður gerir það að verkum að undrast má að tillaga um lögleyfingu fíkniefna hafi náð inn á kjörseðil enda ofsinn stundum yfirgengilegur í andstæðingum lögleyfingar. En það er ekki nóg með að tillagan hafi náð inn á kjörseðil í Alaska heldur hlaut hún umtalsverðan stuðning, eða 39% atkvæða. Ef miðað er við áróðurinn sem rekinn er og þá opinberu umræðu sem boðið er upp á um þetta mál mætti ætla að slík tillaga fengi engan stuðning, en þessi stuðningur er aðeins enn eitt dæmið um vaxandi þrýsting á lögleyfingu fíkniefna.

Einnig er til marks um vaxandi stuðning við lögleyfingu fíkniefna að síðustu árin hefur notkun kannabisefna í lækningarskyni verið samþykkt í hverju fylki Bandaríkjanna á fætur öðru. Í þessum kosningum voru slíkar tillögur lagðar fram í tveimur fylkjum og fengu þær stuðning meirihluta kjósenda í þeim báðum. Þá má nefna að tveir fylkisstjórar í Bandaríkjunum hafa lýst sig hlynnta lögleyfingu, þó aðeins annar þeirra hafi haft kjark til að beita sér fyrir því að lögleyfingin nái fram að ganga.