Mánudagur 20. nóvember 2000

325. tbl. 4. árg.

Vef-Þjóðviljinn hefur áður hvatt til þess að stofnuð séu samtök sem hafi það eitt að baráttumáli að koma í veg fyrir að utanríkisráðherra frétti af húsnæði á lausu í fjarlægum löndum. Slík boð virðast freista ráðherrans svo mjög að hann getur ekki stillt sig um að opna sendiráð eða annan kontór á kostnað skattgreiðenda. Þannig vildi til að í dönsk-sænsku sendiráði í Mosambique voru laus „eitt eða tvö herbergi“ að sögn ráðherrans. Ef við tökum þessi herbergi á leigu eigum við í fyrsta sinn tækifæri á að „komast inn í Afríku með diplómat“, sagði ráðherrann hróðugur í nóvember á síðasta ári. Þegar fréttist hins vegar af sparnaði hjá ráðuneytinu þá varð hann vegna mistaka! Berlínarborg tókst að mæla vitlaust lóðarskika sem utanríkisráðuneytið keypti undir sendiráð og varð borgin þess vegna af 95 milljónum króna sem Halldór Ásgrímsson mun glaður hafa nýtt í önnur verkefni. Þau verkefni voru þó ekki skattalækkanir. Svo stórkostleg verða mistökin ekki!

Andrés Magnússon gerði þessa landvinninga utanríksiráðherra að umtalsefni á Skjá 1 í síðustu viku og birtist umfjöllun hans í heimasíðu Egils Helgasonar. Þar segir m.a.: „Frá því að kommúnisminn dó hér um árið hefur sáralítið verið deilt um utanríkismál á Íslandi, að minnsta kosti á opinberum vettvangi. Nú eru allir komnir í NATO-liðið nema kannski vinstrigrænir og þó ekki einu sinni allir vinstrigrænir. Það er helst að menn rífist aðeins um Evrópusambandið, en allt í góðu samt. Og kannski það sé bara hið besta mál að menn séu almennt sammála um utanríkisstefnuna. Þetta með NATO er löngu afgreitt, varnarsamningurinn við Bandaríkin tryggir öryggi landsins, EES viðskiptahagsmuni í Evrópu, í hafréttarmálum eru fáir lausir endar eftir og svo er eitthvert dútl í kringum norræna samvinnu, sem flestum virðist standa á sama um. Með öðrum orðum mætti halda að allt væri í himnalagi og það væru rólegir dagar í ráðuneytinu. En svo heyrir maður Halldór Ásgrímsson flytja ræðu á Alþingi um ástand og horfur frá sjónarhóli Utanríkisráðuneytisins og maður spyr bara sjálfan sig hvort hann sé búinn að vera svo mikið í útlöndum að hann hafi einfaldlega tapað áttum. Í ræðunni kom það helst fram hjá Halldóri að heimurinn hafi minnkað. Og það stendur ekki á viðbrögðum við þessum ótrúlegu tíðindum: Jú, það þarf að stórefla starfsemi utanríkisráðuneytisins!“

Og áfram hélt Andrés: „Ég efa í sjálfu sér ekki að það er nóg að við að vera hjá utanríkisráðuneytinu. En ég dreg hins vegar stórlega í efa að þar sé verið að fást við eitthvað sérstaklega nauðsynlegt eða þarflegt. En hvað eru menn að bjástra þarna? Þeirri spurningu er auðsvarað: Fyrst og fremst starfar utanríkisráðuneytið við það að stækka sjálft sig og fjölga verkefnum. Á þessarri dásamlegu öld upplýsingaflæðis er Utanríkisráðuneytið nefnilega uppteknast af því að opna sendiráð út um allar koppagrundir. Á sínum tíma var opnað sendiráð í Peking af því að það átti að vera svo miklu ódýrara en í Tókíó, því þar væri hæglega hægt að sinna báðum löndum í einu. Það var nánast eins og að Jón Baldvin hefði fundið sérlega gott tveir-fyrir-einn tilboð. Og þessu trúðu allir. En svo leið tíminn og þá kom í ljós að þetta var tóm steypa og allt í einu bráðnauðsynlegt að opna sendiráð í Tókíó. Og því virðast allir trúa líka. En trúir því einhver að utanríkishagsmuna Íslands verði ómögulega gætt án þess að einnig séu opnuð sendiráð í Ottawa og Vínarborg? Eða skrifstofu í Maputo í Mózambík? Ég hélt raunar fyrst að þetta með Maputo væri grín, en nei, ráðuneytinu er fúlasta alvara. Og auðvitað kemur aldrei til greina að loka neinu sendiráði þegar það hefur einu sinni verið opnað.“