Helgarsprokið 29. október 2000

303. tbl. 4. árg.

Á næstunni er væntanleg ný skýrsla frá loftslagnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um hugsanlega hlýnun andrúmslofts jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa af manna völdum. Skýrslan er ekki tilbúin en sumir fjölmiðlar geta ekki beðið með að draga ályktanir af hinni óbirtu skýrslu. Það gerir til dæmi Morgunblaðið í leiðara í dag. Í leiðaranum segir m.a. „Vísindamennirnir segja að verði ekki dregið úr menguninni muni yfirborðshiti á jörðinni hækka um allt að sex gráður á celsíus til loka þessarar aldar.“ Samkvæmt fréttum af hinni óbirtu skýrslu er þó aðeins um hálfsannleik leiðarahöfundar að ræða þar sem neðri mörkin í skýrslunni eru 1,5 gráðu hækkun á Celcius við lok næstu aldar. Hvers vegna sagði leiðarahöfundurinn ekki frá neðri mörkunum? Ef til vill er það ekki eins áhrifaríkt í hræðsluáróðrinum. Eins og sjá má að meðfylgjandi grafi hafa spár IPCC breyst töluvert í gegnum árin og ef marka má fréttir af hinni óbirtu skýrslu má nú eiginlega segja að nýjasta spáin spanni allt það svið sem áður verið spáð fyrir um að hitinn hækki á næstu öld. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart þar sem nefndin hefur verið gagnrýnd fyrir að lækka spár sínar jafnt og þétt. Með því að spá nógu víðu breytingasviði hefur nefndin nokkuð borð fyrir báru í framtíðinni. 

Í leiðaranum í gær var einnig vitnað í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins frá því 26. mars í vor þar sem ritað var um „kenningar vísindamanna um, að gróðurhúsaástandið gæti orðið til að stöðva færibandið [Golfstraumsins] og valda nýrri ísöld.“ Vef-Þjóðviljinn leyfði sér reyndar að fjalla um þetta Reykjavíkurbréf á sínum tíma og þá merku vísindamenn sem Morgunblaðið hefur sér til halds og trausts í þessum málum. Um þetta merka Reykjavíkurbréf um „gróðurhúsaástandið“ sagði Vef-Þjóðviljinn hinn 27. mars síðastliðinn:

Þessa mynd birti "vísindamaður" Morgunblaðsins af sjálfum sér undir skurðarhnífnum.
Þessa mynd birti “vísindamaður” Morgunblaðsins af sjálfum sér undir skurðarhnífnum.

„Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í gær var á trúarlegu nótunum, ja eiginlega þessum auðtrúanlegu. Efni þess hefur þó ekkert með trúarbrögð að gera heldur umdeildar kenningar um mögulegar breytingar á andrúmslofti jarðar. Í Reykjavíkurbréfinu var hins vegar lítið rætt um vísbendingar með og á móti þessum kenningum heldur er  nýtt syndafall boðað. Það mun ekki verða á fljótandi formi að þessu sinni heldur sem ís sem mun leggjast yfir allt norðurhvel jarðar. Það sem höfundur bréfsins hefur fyrir sér um þetta fær hann aðallega úr bókinni The Coming Global Superstorm. Annar höfunda þessarar bókar, Whitley Strieber, heldur því fram að hann hafi verið brottnuminn af geimverum en skilað aftur. Hann segir geimverurnar hafa skilið eftir lítinn hlut í líkama sínum og er ánægjulegt að geta vitnað beint í þennan ágæta heimildarmann Morgunblaðsins um vísindaleg álitaefni: „Ég lét gera tilraun til að fjarlægja ígræðsluna síðastliðið haust en það mistókst. En hluturinn sem sást, „hvítur diskur“, var ekki eitthvað sem sést venjulega í mannslíkamanum. Þrátt fyrir þá staðreynd að hann hafði verið festur í brjóskið færði hluturinn sig undan hnífi skurðlæknisins og kom sér fyrir í öðrum hluta eyrans en færði sig þó á upphaflegan stað eftir að skurðurinn hafði verið saumaður saman.“ Frekari lýsing af þessum hremmingum mannsins er að finna í bókinni Confirmation, sem er ein af sex bókum hans um náin kynni af geimverum.

Hinn höfundur bókarinnar, Art Bell að nafni, hefur séð um útvarpsþátt seint á kvöldin sem helgaður er fljúgandi furðuhlutum, yfirskilvitlegum atburðum og öðru því sem leitt gæti til „nýrrar heimsreglu“. Nefna má að skýringar Bells á hörmungum eins og flugslysum felast í því sem hann kallar „quickening“ sem er fyrirboði um hin óhjákvæmilegu endalok. Bell var einróma valinn besti útvarpsmaður ársins á Paranormal World Conference 2000, eða Yfirskilvitlegu alheimsráðstefnu ársins 2000. Þetta er mikill vísindaheiður.

Þegar viðfangsefni þessara tveggja manna eru skoðuð kemur skemmti- og furðuþátturinn X-Files helst upp í hugann, svo fjarstæðukennd eru viðfangsefnin og umfjöllunin. Það verður að teljast sérstakt, svo ekki sé meira sagt, að Morgunblaðið skuli gera slíka menn að heimildarmönnum um vísindaleg málefni. Staðreyndin er sú að engin ástæða er til að vera með hræðsluáróður og heimsendaspár en full ástæða til að ræða þessi mál eins og önnur með rökstuðningi og stuðningi við staðreyndir. Til dæmis má benda á heimasíðu Ágústs H. Bjarnasonar rafmagnsverkfræðings um kenningar um hlýnun andrúmslofts jarðarinnar. Þar er t.d. að finna skoðanir erlendra fræðimanna sem hafa það ekki helst sér til ágætis að hafa verið brottnumdir af geimverum.“