Laugardagur 28. október 2000

302. tbl. 4. árg.

Í gær var ákveðið að barnabætur muni hækka um þriðjung á næstu þremur árum og útgjaldaauki ríkissjóðs verði um 2 milljarðar á ári. Þannig er málið að minnsta kosti kynnt í fjölmiðlum. Ekki er hirt um að geta þess hverjir eiga að greiða fyrir þessa útgjaldaaukningu en það skal upplýst hér að það mun vera almenningur enda eru erlendar fjárfestingar fjármálaráðherra fyrir fjárlagaafganginn, t.d. fasteign á besta stað í Tokyo upp á 700 milljónir, ekki farnar að skila arði enn.

Í Viðskiptablaði vikunnar skrifa Gústaf Steingrímsson og Örn Valdimarsson grein um nauðsyn þess að lækka skatta til að bæta stöðu íslensks atvinnulífs og heimila. Þeir benda m.a. á að skattalækkun á fyrirtæki gæti vegið á móti því að þau þurfi að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Þeir nefna dæmi um það hvernig verja mætti 15 milljörðum af 30 milljarða tekjuafgangi ríkissjóðs til skattalækkana: Niðurfelling eignarskatta á lögaðila er upp á 2,4 milljarða. Niðurfelling stimpilgjalda samsvarar 3,3 milljörðum. Lækkun tekjuskatts lögaðila úr 30 í 25% svarar til 2,1 milljarðs. Við afnám „hátekjuskatt“ yrði ríkissjóður af 1,7 milljarða tekjum. Lækkun tryggingargjalds úr 5,23 í 4,00% myndi valda ríkissjóði 4,6 milljarða tekjumissi. Erfðafjárskattur skilar ríkissjóði 0,6 milljörðum og hann mætti einnig fella niður.
Vafalítið hefði slík skattalækkun jákvæð áhrif á efnahagslífið sem gæfi ríkissjóði auknar tekjur á móti.