Föstudagur 27. október 2000

301. tbl. 4. árg.

Um þessar mundir er hálft ár liðið frá því þrír glaðhlakkalegir ráðherrar kynntu nýtt frumvarp sitt til nýrra laga um fæðingarorlof. Frumvarpið kvað á um gríðarlega aukningu varanlegra opinberra útgjalda með tilheyrandi stórfelldum skattahækkunum í framtíðinni. Einnig fól frumvarpið í sér mikla forræðishyggju þar sem ráðherrarnir vildu fá að ráða því sjálfir hvernig fjölskyldurnar nýttu sér fæðingarorlofsréttinn og tóku ekki í mál að fjölskyldurnar mættu haga því eins og hverri og einni hentaði best. Frumvarp þetta var síðan keyrt í gegnum Alþingi á ofsahraða og var lögð mikil áhersla á að það fengi sem minnsta umræðu í þinginu. Alvarlegum mótmælum og athugasemdum, til dæmis frá svo ólíkum aðilum og Samtökum atvinnulífsins og Félagi leikskólakennara var ekki sinnt og engum rökum tekið. Frumvarpið – sem hér í Vefþjóðviljanum hlaut nafnið „Mál nr. 623: Geir H. Haarde gegn almennningi“ – varð svo að þeim lögum um fæðingarorlof sem gert er ráð fyrir að taki gildi um áramótin.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði með yfirburðum þeirri tillögu sem Geir H. Haarde hefur barist fyrir síðan. Hann var kannski ekki á landsfundinum. Og les kannski ekki Moggann heldur.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði með yfirburðum þeirri tillögu sem Geir H. Haarde hefur barist fyrir síðan. Hann var kannski ekki á landsfundinum. Og les kannski ekki Moggann heldur.

Eins og rakið var í vor þá voru ekki ný tíðindi að þetta meginatriði frumvarpsins hlyti dræmar undirtektir. Þannig má nefna að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í fyrra höfðu helstu hugmyndasmiðir nýju laganna reynt að keyra samskonar hugmyndir í gegn. Landsfundurinn hafnaði þá með afgerandi hætti þeirri kröfu þessa hóps að fæðingarorlofsréttur yrði ekki framseljanlegur milli foreldra. Það er hins vegar svo furðulegt að núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins lætur eins og honum komi þessi skilningur landsfundar flokks hans ekki við og vann allt frá fundinum að því að hafa hann að engu. Enn furðulegra er það að alla tíð síðan hið ógeðfellda frumvarp til fæðingarorlofslaganna kom fram í apríl, hefur því blákalt verið haldið fram á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins að frumvarpið sé í „samræmi við ályktanir og yfirlýsingar flokksins“. Reyndar mun fæðingarorlofsfrumvarpið vera eina lagafrumvarpið sem nokkurn tímann hefur fengið slíka „kynningu“ á heimasíðunni.

Á dögunum samþykkti fremur fjölmennt aukaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna þá stefnu að fæðingarrlofsréttur ætti að vera samningsatriði en ekki undir fyrirskipunum hins opinbera. Hefur sú samþykkt valdið mikilli ólgu meðal róttækra feminista og er nú væntanleg frá þeim auglýsingaherferð þar sem ungt og ferskt fólk fagnar hinum nýju lögum með allri sinni forræðishyggju, risaútgjaldaaukningu og skattahækkunum. Það verður aldeilis gaman að sjá þá menn sem munu taka þá skemmtilegu afstöðu – ekki síst ef þeir ætla síðar að hvetja til ráðdeildar á öðrum sviðum.

Ítarlega samantekt um lög um fæðingarorlof má finna hér.