Fimmtudagur 26. október 2000

300. tbl. 4. árg.

Á Siglufirði eru reknar tvær matvöruverslanir. Önnur er í eigu einstaklinga á Siglufirði en hina rekur Kaupfélag Eyfirðinga, Akureyrardeild. Í gær gerðist það svo að verslunarmannafélag Siglufjarðar sendi frá sér ályktun þar sem bæjarbúir voru hvattir til að versla ekki í síðarnefndu búðinni. Fyrir því voru meðal annars gefnar þær ástæður að þar væri rekin slæm starfsmannastefna, verslunarstjóra og „trúnaðarmanni“ hefði verið sagt upp auk þess sem sérstaklega var tekið fram að hillurnar í búðinni væru meira og minna tómar. Jafnframt ákvað verslunarmannafélagið að breyta hefðbundnu ákalli sínu, „verslum í heimabyggð“, í „verslum við heimamenn“.

Auðvitað er alltaf varhugavert þegar félög sem byggja starf sitt á nauðungargjöldum „félagsmanna“ senda frá sér ályktanir eða grípa til annarra aðgerða, en ef horft er framhjá því atriði þá má að ýmsu leyti fagna efni ályktunarinnar. Þó er Vefþjóðviljinn ekki að setja fram sérstaka skoðun á því hvar Siglfirðingar eigi að versla og hvar ekki. Ástæða er hins vegar til að vekja athygli á þessu máli af öðrum ástæðum. Á Siglufirði er nefnilega verið að hvetja bæjarbúa til að beina viðskiptum sínum í ákveðinn farveg, en ekki verið að hvetja til opinberra aðgerða gegn því fyrirtæki sem mönnum er í nöp við.

Eins og menn vita þá er það fólk til sem hefur miklar áhyggjur af stærð fyrirtækja og því meiri sem fyrirtækin verða stærri. Ýmsir vel meinandi menn – sumir þeirra telja sig jafnvel frjálslynda og markaðssinnaða – eru mjög áfram um það að hið opinbera beiti valdi til að „hafa hemil á“ fyrirtækjum og setja þeim stólinn fyrir dyrnar á ýmsa lund. Svo ógeðfellt sem það er, þá reyna slíkir menn oft að etja yfirvöldum gegn þeim fyrirtækjum sem annað fólk hefur ákveðið að versla við og má heita ömurlegt að ríkið haldi úti sérstakri stofnun, „Samkeppnisstofnun“, sem sérstaklega virðist hafa það hlutverk að reka slík erindi.

Þessir menn eru nefnilega að beita sér gegn fyrirtækjum sem eru stór af því að fjöldi fólks hefur beint viðskiptum sínum til þeirra. Þeir sem einhverra hluta vegna eru þeirrar skoðunar, að tiltekin fyrirtæki séu orðin „of stór“, eða hafi „náð markaðsráðandi stöðu“ ættu þess í stað að reyna að koma sér upp nægilegum manndómi til að heyja sjálfir sín stríð en láta vera að neyða aðra til þátttöku í þeim með sér. Það er til dæmis ekkert að því einn Siglfirðingur hvetji aðra til að versla eða versla ekki við tiltekinn kaupmann. Það er einnig mjög eðlilegt að sá, sem hefur áhyggjur af því að tiltekinn stórmarkaður sé orðinn „of stór“, reyni að versla sem mest við kaupmanninn á horninu og hvetji aðra til að gera slíkt hið sama. Í stuttu máli, það er ekkert við það að athuga að menn beini sínum viðskiptum – verji sínu eigin fé – eftir þeim persónulegu forsendum og skoðunum sem þeir sjálfir hafa. Þeir verða hins vegar að stilla sig um það að krefjast liðsinnis hins opinbera í þeirri baráttu. Allir þeir sem í raun styðja frjáls viðskipti og athafnafrelsi einstaklingsins hljóta að óska eftir því að opinberar stofnanir sjái atvinnulífið í friði.