Miðvikudagur 25. október 2000

299. tbl. 4. árg.

Hér er mál fyrir vinstri-græna eða í framboðsræðu Óla Björns. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna er húðflúr bannað. Rökin fyrir banninu eru kunnugleg: Menn geta skaðað sjálfa sig á því að fá sér flúr. Flúrnálarnar eru til dæmis stundum óhreinar og geta borið með sér smit. Ígerð getur komist í flúrið. Þetta getur kostað heilbrigðiskerfið stórfé. Svo er auðvitað spurt með þjósti: Ef við fullorðna fólkið komum ekki í veg fyrir húflúr hvernig getum við ætlast til þess að börnin okkar hafni húðflúri?

En afleiðingarnar af þessu banni við því að menn skaði hugsanlega sjálfa sig eru einnig kunnuglegar: Húðflúrarar iðka list sína á svarta markaðinum þar sem neytandinn á óhægt með að leita réttar síns ef á honum er brotið. Hreinlæti er tæplega meira við slíkar aðstæður en ef flúrið væri löglegt. Það skapar einnig viss vandkvæði hve vinsælt er að flúra mjög prívat staði líkamans. En nú þegar er hefð fyrir því að hið opinbera leiti í iðrum manna að fíkniefnum og gramsi í því sem gengur niður af fólki í sama tilgangi. Hví skyldu ekki fást samþykkt lög sem heimila hinu opinbera að kíkja ofan í einn og einn buxnastreng í leit að húðflúri?

Þau ánægjulegu tíðindi bárust þó frá Bandaríkjunum í gær að banninu hefði verið hrundið fyrir hæstarétti í Massachusetts. Dómarinn taldi það ekki standast stjórnarskrárvarinn rétt manna að banna mönnum að flúra húð.