Þriðjudagur 24. október 2000

298. tbl. 4. árg.

Í leiðara DV í gær hvatti Óli Björn Kárason til þess að refsingar í fíkniefnamálum yrðu þyngdar og það 10 ára hámark sem er á refsingum við fíkniefnaafbrotum verði hækkað. „Mikilvægt er að löggjafinn sendi sölumönnum dauðans skýr skilaboð um að Íslendingar séu tilbúnir til að verjast“, sagði í leiðara Óla Björns eins og fíkniefnasalar séu sýnilegur óvinur sem aðeins þurfi að veita duglega ráðningu í eitt skipti fyrir öll. Það mætti ætla að ritstjórann langi í pólitík þegar hann ber svona pólitískan rétttrúnað á borð.

Þessi málflutningur er í hróplegu ósamræmi við þá skoðun ritstjórans sem sér víða stað í skrifum hans að einstaklingnum sé betur treystandi fyrir sínum málum en hið opinbera hafi vit fyrir honum og skammti réttu fíkniefnin (áfengi og tóbak) ofan í hann en banni önnur. Hann vill loka menn inni í fangelsi í yfir 10 ár fyrir sölu á varningi sem einhver vill kaupa! Það er einnig einkennilegt að ritstjórinn loki augunum fyrir hliðarverkunum þyngri refsinga og harðari aðgerða gegn ólöglegum fíkniefnum. Ekki aðeins þarf almenningur að greiða hærri skatta fyrir vikið heldur hækkar verð efnanna og fíklar fremja fleiri innbrot og rán til að fjármagna neyslu sína. Aukin löggæsla til höfuðs manninum með 2 grömm af grasi á útihátíð hækkar ekki aðeins verðið og fjölgar innbrotum í bænum heldur minnkar líkurnar á því að innbrotsþjófurinn náist. Lögreglan á þvert á móti að eyða auknum tíma í að vernda eignir, líf og limi fólks fyrir ágangi misindismanna í stað þess að standa í vonlausri baráttu gegn því að fólk skaði sig sjálft með fíkniefnaneyslu.

En þyngri refsingar hafa fleiri slæmar afleiðingar. Þegar svo þungar refsingar blasa við mönnum vegna fíkniefnasölu er orðið stutt í að það borgi sig að myrða vitni eða lögreglumenn til að koma sér undan dómi fyrir fíkniefnabrotið. Að minnsta kosti má reyna hótanir og líkamsmeiðingar þegar yfir 10 ára fangelsi blasir við ella. Í ýmsum löndum liggur dauðarefsing við fíkniefnasölu. Þar er fíkniefnasala eins og hér. Það er því ekki að sjá að það komi í veg fyrir fíkniefnasölu að svipta dópsalana lífi þegar til þeirra næst. Þvert á móti virðast harðar refsingar vera eins og olía á eldinn, fíkniefnasalarnir vígbúast og beita öllum vopnum gegn lögreglu enda búið að gera þeim ljóst – með harðari refsingum – að annaðhvort myrði þeir lögregluna eða verði teknir sjálfir af lífi.