Mánudagur 23. október 2000

297. tbl. 4. árg.

Ólafur Hergill Oddsson héraðslæknir ritaði grein í laugardagsblað Dags-Tímans um áhrif ólympískra hnefaleika á líkamann. Í lokaorðum greinarinnar sagði: „Niðurstöður vísindarannsókna á skaðanum af áhugamannahnefaleikum eru ekki samhljóða. Flestir vísindamenn segja að rannsaka þurfi þessi mál betur, áður en endanlegar ályktanir eru dregnar. Á meðan þessi óvissa ríkir er nauðsynlegt að íslenskir íþróttamenn, börn og fullorðnir fái að njóta vafans. Þess vegna er ekki tímabært að ræða lögleiðingu ólympískra hnefaleika.“
Nú er það alls ósannað að lesmál í Degi-Tímanum geti ekki valdið sturlun lesenda. Að vísu hafa ekki verið gerðar á þessu vísindalegar rannsóknir en ef sá hópur sem les blaðið örugglega daglega, þ.e. þeir sem skrifa í það, er skoðaður, má draga ýmsar ályktanir en þó engar endanlegar. Þess vegna hlýtur löggjafinn að stöðva útgáfu Dags-Tímans svo íslenskir lesendur, börn og fullorðnir fái að njóta vafans.

Meðal þess sem fjölmiðlamönnum þykir áhugaverðast að ræða, eru fjölmiðlamenn. Starfsaðstaða fjölmiðlamanna og einkum allskyns aðstoð við fjölmiðlamenn er þeim sígjöfult umhugsunarefni. Og jafnan þegar þeir rekast á minnstu fyrirstöðu tala þeir um að þá sé vegið að lýðræðinu í landinu enda láta háfleygir fjölmiðlamenn gjarnan eins og þeir séu sérstakir starfsmenn þess. Slíkar upphrópanir eru þegar farnar að heyrast frá fjölmiðlamönnum í tengslum við breytingar á þeim fjarskiptalögum sem sett voru fyrir skömmu.

Í þeim lögum er farið fram á að sá maður sem hyggst hljóðrita símtal láti viðmælanda sinn vita af því áður en upptakan hefst. Og fjölmiðlamenn eru æfir yfir þessu. Blaðamannafélagið sendir frá sér samþykkt eftir samþykkt þar sem þess er krafist að mönnum – og þá ekki síst fjölmiðlamönnum – verði heimilað að hljóðrita símtöl án þess að láta vita af því. Og eins og allt sem fjölmiðlamenn vilja, þá er þetta einmitt nauðsynlegt fyrir lýðræði í landinu.

„Það er fráleitt að það sé vítavert að taka upp eigin símtöl“ sagði Hjámar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands og blaðamaður á Morgunblaðinu í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn. Og þessi frasi hefur ásamt lýðræðinu verið áberandi í málflutningi fjölmiðlamanna undanfarið. Og undir þetta má taka, svo langt sem það nær. Auðvitað má hver sem er taka upp eigið símtal. Málið versnar hins vegar þegar menn vilja einnig fara að taka upp annarra manna símtal. Þeir sem telja sig hafa heilagan rétt til að „taka upp eigin símtöl“ horfa fram hjá því að þeir eru sjaldnast einir í símanum og hinn aðili símtalsins hefur sama rétt til að ákveða að „eigið símtal“ verði tekið upp eða ekki tekið upp. Nema náttúrlega menn telji sig svo merkilega að þeir einir hafi ráðstöfunarrétt yfir samtali sínu við aðra og samtalið sé „þeirra eigið“ og ekki annarra.