Helgarsprokið 22. október 2000

296. tbl. 4. árg.

Rétt eina ferðina enn boða kennarar í ríkisskólum landsins til verkfalls. Því hljóta menn að velta því fyrir sér hvernig megi koma í veg fyrir þessar sífelldu vinnudeilur í skólunum. Vafalaust telja ýmsir að aðeins þurfi að hækka laun kennara hressilega. Um þá lausn má þó efast. Farsælli frambúðarlausn hlýtur að fela í sér þátttöku og ábyrgð kennara og skólastjórnenda á rekstri skólanna. Í dag bera kennarar enga ábyrgð á rekstri skólanna og hafa engan hag af því að rekstur þeirra gangi snurðulaust fyrir sig. Flestir skólar hér á landi eru ríkisstofnanir. Í ríkisstofnun er engum starfsmanni umbunað fyrir góðan árangur og engum refsað fyrir slakan árangur. Það eru engir hluthafar sem þrýsta á stjórnendur um að reksturinn gangi vel og stjórnendur og aðrir starfsmenn eiga ekki kost á því að gerast hluthafar. Þótt margir kennarar sinni störfum sínum af samviskusemi og dugnaði er ekkert sem hvetur þá til þess. Þeir fá laun eftir prófgráðum og starfsaldri í stað kennarahæfileika og afkoma skólans og orðspor skipta ekki máli. Ríkiskerfið er svo staðnað og stirt að stöður frábærra kennara eru auglýstar lausar til umsóknar á hverju ári þar sem viðkomandi hefur ekki próf í uppeldisfræðum! Samkvæmt lögum mega þessir einstaklingar ekki kalla sig framhaldsskólakennara heldur „leiðbeinendur“, jafnvel þótt þeir hafi doktorspróf í viðkomandi grein upp á vasann.

Eins og Vef-Þjóðviljinn hefur sagt frá eru þrír af fjórum frambjóðendum demókrata og repúblikana til varaforseta og forseta í Bandaríkjunum fylgjandi svo kölluðu ávísanakerfi í skólum, en með ávísanakerfi er átt við það fyrirkomulag að hið opinbera greiði tiltekna upphæð með hverjum nemanda til þess skóla sem nemandinn og/eða foreldrar hans velja. Það er aðeins Al Gore sem er andvígur þessari leið. Það er hins vegar fyrsti liðurinn í umbótaáætlun George W. Bush í skólamálum að gefa foreldrum kost á að færa börn sína úr lélegum ríkisskólum í aðra skóla og láta ávísunina fylgja með barninu. Menntamál hafa fengið talsverðan tíma í sjónvarpskappræðum forsetaefnanna og þar hefur ágreiningur þeirra varðandi ávísanakerfið komið fram. Raunar hefur Jeff Bush, ríkisstjóri í Flórída og bróðir George W. Bush, opnað fyrir ávísanakerfið í Flórídaríki og þar geta nemendur nú flutt sig úr ríkisskólum í einkaskóla og tekið með sér þá fjármuni sem kostaði að hafa þá í ríkisskólanum. Ávísanakerfið fullnægir þannig kröfum þeirra sem telja að ríkisframlög til skólamála tryggi „jafnrétti til náms“.

Ef til vill má rekja helstu þætti ávísanakerfisins í nokkrum liðum:
Ávísanakerfið auðveldar kennurum að stofna nýja skóla þar sem fjárframlög hins opinbera fylgja nemendum en ekki skólum.
Ávísanakerfið opnar þar með leið fyrir góða kennara og skólastjórnendur til að hækka laun sín.
Ávísanakerfið leiðir af sér keppni milli skóla sem eykur líkur á nýjungum og fjölbreytni.
Ávísanakerfið gerir menntakerfið sveigjanlegra og líklegra til að bregðast hratt við tækninýjungum. Ávísanakerfið gerir kostnaðinn við skólagöngu sýnilegan.
Ávísanakerfið gerir nemendur og foreldra þeirra þátttakendur í því að móta skólastarfið þar sem þeir þurfa að velja sér skóla.
Ávísanakerfið gerir með öðrum orðum kleift að nýta kosti einkarekstrar í skólakerfinu án þess að draga úr þeim opinbera stuðningi sem hver og einn nýtur í dag til skólagöngu.

En í þessu máli þurfa kennarar að taka frumkvæðið og losa sig úr fjötrum ríkisrekstrarins. Það gerist ekki með enn einu verkfallinu.