Í vikunni bárust þau huggulegu tíðindi frá landsstjórninni að sveitarfélögum yrði gert kleift að hækka skatta almennings. Útsvarið, sá hluti tekjuskatts einstaklinga sem rennur til sveitarfélaga, fær að hækka um hátt í eitt prósent, en á móti hyggst ríkisvaldið lækka hlutfall sitt um þriðjung úr prósenti. Ef stór hluti sveitarfélaga nýtir sér þennan hækkunarmöguleika mun þetta því þýða skattahækkun. Enginn sem fylgst hefur með málflutningi sveitarfélaganna þarf að efast um að flest eða öll munu þau nýta þessa heimild, ef til vill að Skilmannahreppi undan skildum.
Þessi óvænta og óþarfa skattahækkun kemur á sama tíma og ríkisvaldið segist munu reka ríkissjóð með 30 milljarða króna afgangi á næsta ári. Það er sum sé ekki nóg með að ríkið ætli að halda sig við það að taka meira fé af skattgreiðendum en þörf krefur – 30 milljörðum meira – heldur hyggst það leyfa sveitarfélögum að neyða skattahækkun upp á landsmenn.
Þessi ákvörðun er svo yfirgengileg að jafnvel krati á borð við Guðmund Árna Stefánsson, sem hefur verið þekktur fyrir margt annað en ráðdeild í meðferð almannafjár, mótmælir og telur að ríkið ætti að mæta að fullu hækkun skatts sveitarfélaganna með samsvarandi lækkun hjá sér. Þetta viðhorf Guðmundar Árna má segja að gangi í rétta átt, en þó alls ekki nógu langt, því hann álítur líkt og aðrir stjórnmálamenn að fjárhagsvandi sveitarfélaganna felist í ónógum tekjum.
Staðreyndin er auðvitað sú að sveitarfélögin fá mun meira fé en þau hafa við að gera ef þau kynnu að stilla útgjöldum í hóf. Það eru útgjöldin sem eru of mikil en ekki tekjurnar sem eru of litlar. Ef sveitarfélögin haga sér eins og þau hafa gert, þ.e.a.s. eyða í alls kyns óþarfa án tillits til tekna, þá skiptir engu máli hvort útsvarið er hækkað eða ekki. Þetta má til að mynda sjá af því að tekjur sveitarfélaganna hafa hækkað mikið síðustu árin, rétt eins og tekjur ríkisins. Með því að halda sköttum of háum hefur ríkisvaldinu tekist að snúa halla í afgang þrátt fyrir mikla útgjaldaaukningu. Árangur ríkisins er slakur, en rekstur sveitarfélaganna einkennist hreinlega af óstjórn einni saman. Það væri nær að þau tækju til hjá sér og hættu við nokkur gæluverkefni en að heimta auknar álögur á almenning.