Eins og menn vita þá má ríkið ekki mismuna þegnunum með ómálefnalegum hætti. Sú regla hefur verið í svo mikilli tísku undanfarin ár og sumir gerst svo margorðir og háfleygir um hana, að margir halda að hún eigi einnig við um einkaaðila. Margir virðast þeirrar skoðunar að einkaaðilar megi ekki mismuna fólki með hverjum þeim hætti sem þeim sýnist. Þess vegna er spennandi að sjá hvort þeir sömu menn muni ekki rísa upp yfir nýjustu mismununinni af hálfu einkaaðila.
Íslandsbanki býður nú nýja tegund innlánsreikninga og kallar þá framtíðarreikninga. Þessir reikningar munu víst eingöngu verða stofnaðir í nafni ungra barna og eiga að bera hærri vexti en allir aðrir reikningar. „Börnin fá bestu vextina“ auglýsir Íslandsbanki og þarf ekki að hafa fleiri orð um það hvort bankinn mismunar viðskiptavinum sínum eftir aldri þeirra eða ekki. Þess vegna er sjálfsagt stutt í það að háfleygir mannréttindamenn og jafnréttis fari af stað, vísi í Réttlætiskennd sína og krefjist þess að bankinn hætti þessari mismunun. Eða hvað ætli slíkir menn segðu ef bankinn byði til dæmis körlum betri kjör en konum, eða hávöxnum betri kjör en dvergum?
Vefþjóðviljinn vonar hins vegar að hinum nútímalegu mannréttindafrömuðum verði lítið ágengt við að stöðva Íslandsbanka í því að bjóða þessum hópi betri kjör en öðrum. Vefþjóðviljinn er nefnilega þeirrar skoðunar að bankanum sé fullheimilt að bjóða hverjum sem hann vill þau kjör sem hann vill. Einkaaðilum sé nefnilega fyllilega frjálst að „mismuna“ hverjum öðrum eins og þeir vilja.