Mánudagur 30. október 2000

304. tbl. 4. árg.

Skoðanakannanir ABC News
Skoðanakannanir ABC News

Þótt Al Gore og George W. Bush séu ef til vill ekki æsilegir frambjóðendur er keppnin á milli þeirra æsispennandi. Nú er aðeins rúm vika þar til kosið verðum um næsta forseta Bandaríkjanna. Flestar skoðanakannanir síðustu daga sýna Bush með heldur meira fylgi meðal líklegra kjósenda en Gore en oft er það innan skekkjumarka. Kosið er um 538 kjörmenn í ríkjum Bandaríkjanna og þarf frambjóðandi að koma 270 kjörmönnum í hús til að tryggja sér sigur. Samkvæmt skoðanakönnunum ABC News er Bush nokkuð öruggur með að fá 209 kjörmenn úr 24 ríkjum en Gore 171 úr 12 ríkjum þeirra á meðal fjölmennu ríkjunum New York og Kaliforníu. Óvissa er þá um þá 158 kjörmenn sem eftir eru en þeir koma m.a. frá Flórída (25), Ohio (21), Michigan (18) og Pennsylvaníu (23). Ólíkt föður sínum í kosningunum 1992 þarf Bush ekki að keppa við annan frambjóðanda af hægri væng bandarískra stjórnmála en Ross Perrot átti vafalítið þátt í því að koma Clinton í Hvíta húsið með því að taka atkvæði af Bush eldri. Hins vegar þarf Gore að horfa upp á að neytendafrömuðurinn Ralph Nader taki til sín um 5% fylgi en stór hluti fylgismanna Naders er þó laus í rásinni og ef þeir hætta við að kjósa Nader í stórum stíl munu flestir þeirra kjósa Gore. Þetta gæti skipt sköpum fyrir Gore í ríkjum eins og Oregon (7) þar sem baráttan er jöfn.

Ýmsir gerðu í upphafi kosningabaráttunnar lítið úr þeim mun sem væri á málflutningi frambjóðendanna. Það sýndi sig þó í sjónvarpskappræðum þeirra að Gore er hrifnari af sértækum aðgerðum ríkisvaldsins til að rétta hag ákveðinna hópa. Til dæmis með sérstökum lögum eða styrkjum þeim til framdráttar. En Bush er hallari undir almennar reglur fyrir alla. Þannig eru tillögur Gores um skattalækkanir miðaðar við ákveðna hópa (miðstéttina) en Bush lofaði öllum skattalækkun. Gore talaði gegn opnun skólakerfisins og samkeppni milli skóla en Bush virðist hafa skilning á nauðsyn þess að gefa einkaaðilum kost á að reka skóla.

Það getur einnig skipt þá sem lifa á gæðum náttúrunnar máli hvor vinnur þessar kosningar. Gore hefur verið afar hallur undir umhverfisverndarsinna og það mun ekki auka líkur á því að hvalveiðar verði hafnar að nýju hér við land ef hann fer með sigur af hólmi og hver veit hvaða flugu (eða fisk) „umhverfisverndarsinnar“ fá næst í höfuðið. Þá er líklegt að hann beiti sér af meiri hörku fyrir samþykkt Kyoto samningsins en öldungadeild Bandaríkjaþings hefur verið mjög andsnúin því að staðfesta hann. Það myndi auka þrýsting á íslensk stjórnvöld að ganga að þeim afarkostum sem Kyoto samningurinn kveður á um.