Miðvikudagur 27. september 2000

271. tbl. 4. árg.

Þær eru ólíkar myndirnar sem birtast í sjónvarpi af óðum skríl brjótandi og bramlandi í miðborg Prag og myndirnar sem skipuleggjendur „mótmælanna“ birta á heimasíðu sinni. Þar sjást ekki eignaspjöllin og sár þeirra sem verða fyrir grjótinu og bensínsprengjunum. Boðskapur þessara mótmælenda er afar einkennilegur en þeir gera sér ekki síst mat úr sulti fólks í þróunarlöndunum. Saman við kröfuna um afnám fátæktar er blandað hefðbundnum umhverfisverndarfrösum og annarri hljómfagurri umhyggjusemi. Jafnframt telja þeir að hamla beri viðskiptum og andmæla heimskapítalismanum. Mótmælendur leggja áherslu á að sýna sig við fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og kenna þessum stofnunum um aukið frelsi í heimsviðskiptum. Það er þó ekki réttmætt þar sem þessar stofnanir hafa haft merkilega lítið að segja um aukið viðskiptafrelsi á síðustu áratugum. Ætli breytingar í Kína og hrun Sovétríkjanna hafi ekki haft meira að segja?

Það er því rangt að gera þessar stofnanir að einkennismerki fyrir frjálsan markaðsbúskap en það hentar mótmælendum ágætlega þar sem þeir þurfa áþreifanlegan andstæðing. Og mótmælendur hafa einnig rangt fyrir sér um það að frjáls viðskipti eigi sök á hungri og eymd í þróunarlöndunum. Ætli nokkur þjóð sem býr við efnahagslegt frelsi hafi það verra en þjóð sem býr við óskaástand skrílsins á götum Prag?

Ríkisútvarpið gerir mikið úr svonefndu öryggishlutverki sínu. Um Vestfjarðagöng fara 600 – 1.000 bílar á dag en í göngunum heyrist ekki í öryggistækinu og bæjaryfirvöld á Ísafirði höfðu af því áhyggjur. Því þótti bæjaryfirvöldunum liggja beint við að óska eftir því við eina helstu öryggisstofnun þjóðarinnar – sjálft Ríkisútvarpið – að úr þessu yrði bætt svo þeir sem leið eiga um göngin geti notið hins margrómaða öryggis Ríkisútvarpsins. Í fyrirspurninni til Ríkisútvarpsins var höfðað til þess að meginhlutverk ríkisútvarpsins væri öryggisþátturinn. Í svari Ríkisútvarpsins var ekki sagt beint nei og heldur ekki já enda getur enginn verið öruggur um neitt þegar helsta öryggistæki þjóðarinnar er annars vegar.