Fimmtudagur 28. september 2000

272. tbl. 4. árg.

Nú hefur samgönguráðherra skipað sérstaka nefnd til að sinna því brýna verkefni að kanna hvort ástæða sé til, og sé svo, að „gera tillögur að reglum um rekstrarleyfi til handa fyrirtækjum sem bjóða upp á hvers konar afþreyingu í ferðaþjónustu en falla ekki undir skilgreiningu laga um ferðaskipuleggjendur eða ferðaskrifstofur.“ Hér mun einkum átt við starfsemi eins og hestaleigu, vélsleðaferðir og bátsferðir og þurfa menn varla að velkjast í vafa um að nefndin mun leggja til vandaðar og faglegar heildarreglur um þessa flóknu starfsemi. Eða halda menn að opinberar nefndar séu gjarnar á að telja að opinberar reglur séu óþarfar?

Engu að síður leyfir Vefþjóðviljinn sér að vona að lítið verði af slíkum reglusetningum. Ekki þarf svo sem að efast um að reglurnar yrðu settar í góðum tilgangi. Vandfundið er það svið þar sem hið opinbera hefur ekki af gæsku sinni sett lög eða reglur um aðstöðu, aðbúnað, verklag, samningareglur, rökstuðning og kærunefndir til að tryggja að allt fari „faglega“ fram og standist „nútímakröfur“. Og í einhverjum tilfellum hafa slíkar reglur eflaust komið að gagni og komið í veg fyrir eitthvert klúður. En með því er aðeins hálf sagan sögð. Alls kyns skilyrði fyrir saklausasta rekstri hamla borgurunum í daglegu lífi þeirra, hvort sem þeir eru að kaupa eða selja þjónustu. Sumar reglurnar hindra menn í að hefja rekstur, aðrar gera hann þyngri í vöfum og dýarari. Nær væri að gera borgurunum auðveldara að hefja rekstur, hvort sem er smáan eða stærri og treysta þeim almennt fyrir eigin viðskiptum.

Það er ekki einungis að Vefþjóðviljinn hvetji samgönguráðherra til að fara sér hægt í að setja borgurunum nýjar reglur. Vefþjóðviljinn hvetur stjórnvöld til að hefja nú þegar endurskoðun reglna þeirra og fyrirmæla sem dengt hefur verið yfir borgarana undanfarna áratugi. Stjórnartíðindin hafa vaxið hraðar en símaskráin og fyrir löngu er kominn tími til að snúa þessari þróun við. Með samvinnu stjórnlyndra þingmanna og velviljaðra einfeldninga hafa verið settar reglur um flestöll svið mannlífsins, reglur sem í reynd eru í besta lagi óþarfar. Ef núverandi stjórnvöld munu ekki hafa forgöngu um að slaka á regluklónni, þá þurfa menn varla að gera sér miklar vonir ef til valda komast þeir menn sem stjórnlyndari eru.