Þriðjudagur 26. september 2000

270. tbl. 4. árg.

Ætli ummæli Markúsar Arnar Antonssonar ríkisútvarpsstjóra „Ríkisrekin afþreying í sjónvarpi allra landsmanna stendur fyrir sínu“ verði til þess að loks ofbýður nægilega mörgum ríkisreksturinn? Það færi vel á því að þessi ummæli hjálpuðu til við að sjónvarpsstöð ríkisins og a.m.k. önnur útvarpsrásin verði seldar einkaaðilum. Leiðarahöfundar Morgunblaðsins og DV virðast þeirrar skoðunar eftir að þessi gullvæga setning hraut úr penna útvarpsstjórans ef marka má leiðara Morgunblaðsins á sunnudag og DV í gær.

Vef-Þjóðviljinn hefur áður getið þess að afnotagjald Ríkisútvarpsins er skásta tegund af skatti sem völ er á. Ekki er nóg með hann sé hinn sami í krónum talið á alla heldur fá menn sérstaka rukkun fyrir honum og vita í hvað hann fer. Skatturinn er því sýnilegur andstætt flestum öðrum sköttum sem menn greiða ýmist sem hluta af vöruverði eða af launum sínum áður en þeir fá launaumslagið. Þetta tryggir auðvitað miklar óvinsældir skattsins, sem er afbragð. Starfsmenn Ríkisútvarpsins tryggja svo endanlega að fólk leggur fæð á skattinn með því að svíkjast sjálfir um að greiða hann. Það væri því glapræði að hætta innheimtu afnotagjaldsins og færa Ríkisútvarpið á fjárlög eins og hugmyndir hafa verið uppi um.

Í gærkvöldi bar fréttastofa Stöðvar 2 enn einu sinni fram tilbúna fréttarétti frá Alþýðusambandi Íslands þess efnis að barnabætur hafi lækkað. Ástæðan fyrir því að þessar bætur hafa lækkað er hin sama og fyrir því að atvinnuleysisbætur hafa lækkað þ.e.a.s. bætt efnahagsástand. Fyrir nokkrum árum barðist ASÍ hatrammlega fyrir því að barnabætur yrðu tekju- og eignatengdar svo að „hátekjufólk“ og „stóreignamenn“ fengju ekki slíkar bætur. Nú hafa hins vegar svo margir bæst í þennan meinta hóp hátekjufólks og stóreignamanna að færri fá bætur en áður. Ætla mætti að forstjórar ASÍ væru ánægðir með þessa þróun en svo er ekki eins og fréttastofa Stöðvar 2 hefur tekið að sér að koma á framfæri. Í stað þess að samgleðjast með þeim umbjóðendum sínum sem eru orðnir „hátekju- og stóreignamenn“ hefur Alþýðusamband Íslands ákveðið að leggjast í stjórnarandstöðu og kokka upp villandi fréttir af hinni vondu ríkisstjórn sem „lækkað“ hefur bætur.