Mánudagur 25. september 2000

269. tbl. 4. árg.

"Fulltrúi almennings" ræðir við umbjóðanda sinn.
“Fulltrúi almennings” ræðir við umbjóðanda sinn.

Flestar stéttir ef ekki allar vilja gera sem mest úr eigin mikilvægi. Og engin þeirra hefur betri aðstöðu til að koma slíkum málflutningi á framfæri en fjölmiðlamenn. Bæði hér á landi og erlendis láta fjölmiðlamenn sér tíðrætt um mikilvægi fjölmiðlamanna sem þeir segja að gegni geysimikilvægu „hlutverki“ í þágu „almennings“. Starfsmenn fjölmiðlafyrirtækja heimta alls kyns fyrirgreiðslu og aðstoð þar sem þeir „vinni í umboði almennings“; að þeir séu að „upplýsa almenning“ um alls kyns hluti sem „almenningur eigi rétt á upplýsingum um“ eða „varði almenning“. Og eftir því sem þessu er oftar og ákafar haldið fram, fjölgar þeim sem samþykkja slíkar staðhæfingar og virðast sumir ganga út frá því að maður verði skyndilega rétthærri en aðrir menn ef hann tekur til starfa hjá fjölmiðlafyrirtæki. Þykir mörgum mjög „nútímalegt“ að láta flest eftir fjölmiðlamönnum og meira að segja þenst nú út svokallaður „fjölmiðlaréttur“ meðal nútímalegra lögfræðinga.

Þór Jónsson, starfsmaður fréttastofu Stöðvar 2 og varaformaður Blaðamannafélags Íslands skrifaði litla grein í Morgunblaðið í gær og þar mátti finna eitt og annað í þessa veru. Grein Þórs var skrifuð til að andæfa grein sem kona nokkur hafði skrifað fáum dögum áður, en sú kona hafði misst náinn ættingja í umferðarslysi og gagnrýndi fjölmiðlamenn fyrir ónærgætni og ákefð í fréttaflutningi af slysum og öðrum hörmungaratburðum. Þór var mjög óánægður með grein hennar og málflutning sem hann sagði byggjast á „ósönnum og ósanngjörnum ásökunum í garð blaðamannastéttarinnar“. Þór sagði að lýsingar konunnar á sjónvarpsmyndum frá nýlegu slysi væru rangar og auk þess hefðu íslenskir fjölmiðlar gengið mun skemur en ýmsir erlendir hefðu gert. Vel má vera að hvort tveggja sé laukrétt hjá Þór en það er annað í grein hans sem Vefþjóðviljinn vill gera lítilsháttar athugasemdir við.

Þór Jónsson sagði að „almenningur [ætti] skýlausan rétt á að fá eins nákvæmar upplýsingar og kostur er um málefni sem varðar hann eins miklu og umferðin á vegum úti.“ Og þetta þykir Vefþjóðviljanum nokkuð hæpin fullyrðing. Vefþjóðviljinn er nefnilega efins um þessar látlausu upphrópanir um „rétt almennings til upplýsinga“ – hann leyfir sér meira að segja að halda því fram að þessi aðili, „almenningur“ að nafni, sé ekki eins rétthár og sumir sjálfskipaðir starfsmenn hans halda gjarnan fram. Að minnsta kosti væri gaman að vita, svona ef menn gefa sér að þessi „almenningur“ eigi rétt á þessum nákvæmu upplýsingum, hver það sé þá sem beri samsvarandi skyldu um að koma upplýsingunum til hans. Ef einn aðili hefur „rétt á“ að fá eitthvað afhent, t.d. hlut, verðmæti eða upplýsingar, þá hlýtur sérstök skylda um afhendingu að hvíla á einhverjum öðrum. Og ef einn aðili á t.d. beinan rétt á „upplýsingum um umferð á vegum úti“ þá hlýtur að hvíla á einhverjum öðrum bein skylda til að koma til hans „upplýsingum um umferð á vegum úti“.

En það er ekki þannig. „Almenningur“ á ekki beinan rétt til slíkra upplýsinga. Og það hvílir ekki bein skylda á nokkrum manni að dreifa slíkum upplýsingum. Og það sem meira er: Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn starfa ekki í umboði neins „almennings“ og hafa ekki sérstakar skyldur við slíkan aðila og taka þaðan af síður við nokkrum réttindum frá slíkum aðila. Engu breytir um þetta hversu margir eða fáir einstaklingar kjósa að eiga viðskipti við fjölmiðilinn þann og þann daginn. Engu breytir heldur hversu gott söluefni upplýsingar kunna að vera. Menn öðlast ekki aukinn rétt til upplýsinga við það eitt að hafa áhuga á þeim. Maður sem starfar á fjölmiðli hefur sama rétt og hver annar til upplýsinga – og í sumum tilfellum hafa menn rétt til að afla þeirra – en fjölmiðlamenn ættu að spara sér háfleygt tal um „hlutverk“ sitt „í þágu almennings“.

Fjölmiðlafyrirtæki eru eins og önnur fyrirtæki. Alls kyns fyrirtæki eru rekin í heiminum og mörg þeirra koma ýmsu fólki til góða. Sveitabýli sem framleiðir matvæli, lyfjagerð sem þróar lyf við sjúkdómi og fjölmiðill sem lýsir atburðarás fótboltaleiks eru allt fyrirtæki, stór eða smá, sem framfleyta eigendum sínum með því að mæta eftirspurn annars fólks. Hvert þeirra gegnir því „hlutverki“ sem það hefur kosið sér. Og það er allt og sumt.