Helgarsprokið 24. september 2000

268. tbl. 4. árg.

Fjármál Alþýðubandalagsins koma reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum enda hefur forystumönnum þess gengið illa að greiða úr þeirri flækju sem þau voru komin í áður en ákveðið var að hætta starfsemi flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar. Fjölmiðlamenn hafa hins vegar yfirleitt ekki reynt að kryfja þessi mál til mergjar eða gefa almenningi skýra mynd af fjármálastöðunni heldur hafa látið sér nægja að birta með reglulegu millibili yfirlýsingar alþýðubandalagsmanna sjálfra um stöðu þessara mála. Virðist eins og þeim þyki ekki við hæfi að spyrja gagnrýninna spurninga í þessu sambandi þrátt fyrir að næg séu tilefnin.

Nýjustu fréttir af fjármálum Alþýðubandalagsins birtust í Morgunblaðinu sl. föstudag. Þar greindi Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi formaður flokksins og núverandi varaformaður Samfylkingarinnar, frá því að búið væri að ganga frá og greiða niður nær allar skuldir flokksins, samtals um 30 milljónir króna, og eftir stæðu aðeins nokkrar milljónir sem fylgja muni alþýðubandalagsmönnum inn í Samfylkinguna. Skuldirnar hafi verið greiddar með framlögum úr styrktarmannakerfi flokksins og svonefndum Sigfúsarsjóði.

Ekki er neitt nema gott um það að segja að skuldugir aðilar greiði niður skuldir sínar, hvort sem um er að ræða fyrirtæki, einstaklinga eða stjórnmálaflokka. Hins vegar verður ekki hjá því komist að rifja upp ýmsar fyrri fréttir, yfirlýsingar og ummæli, sem snerta skuldastöðu Alþýðubandalagins, því samkvæmt þeim virðist ekki allt vera jafn klárt og kvitt og ráða má af þessum nýjustu ummælum fyrrum formanns flokksins.

Í fyrsta lagi ber að geta þess, að erfitt hefur reynst að fá upp á yfirborðið hversu háar fjárhæðir Alþýðubandalagið skuldaði þegar Margrét Frímannsdóttir tók við því hlutverki af Ólafi Ragnari Grímssyni að leggja flokkinn niður. Á landsfundi flokksins 1995 var greint frá því að heildarskuldirnar væru á bilinu 33-35 milljónir króna. Um mitt ár 1998 var flokksmönnum hins vegar sent bréf þar sem greint var frá því að við endurskoðun bókhaldsins hefðu verið miklu hærri eða um 52 milljónir króna. Allt væru það skuldir sem hefðu orðið til á eða fyrir árið 1995. Þessar upplýsingar urðu til þess að tveir fyrrum flokksmenn, Úlfar Þormóðsson og Jón Torfason, rituðu nokkrar greinar í Morgunblaðið þá um haustið þar sem þeir báðu formanninn að gera grein fyrir ýmsum þáttum er tengdust fjármálunum. Voru þetta eðlilegar spurningar af hálfu þessara manna, sem báðir höfðu lagt fé til flokksins og höfðu jafnframt verið beðnir um áframhaldandi fjárstuðning. Eitthvað stóð á skýringunum því hvorki Margrét Frímannsdóttir, forveri hennar á formannsstóli Ólafur Ragnar Grímsson, né nokkur annar sem ábyrgð bar á þessum skuldum flokksins sá ástæðu til að svara.

Úlfar Þormóðsson sá ástæðu til að ítreka spurningarnar í blaðagrein í febrúar 1999 en enn varð fátt um svör. Þar kom fram að samkvæmt upplýsingum frá Margréti Frímannsdóttur væru skuldirnar komnar niður fyrir 40 milljónir króna, en ekki hvernig þær hefðu verið greiddar.

Ef reynt er að ráða í þessar takmörkuðu upplýsingar virðist niðurstaðan vera sú að 1995 hafi Alþýðubandalagið skuldað 52 milljónir, 1999 hafi þær verið komnar niður fyrir 40 og nú, ári síðar, standi aðeins nokkrar milljónir eftir, samkvæmt upplýsingum Margrétar Frímannsdóttur. Hversu margar þær milljónir eru er hins vegar erfitt að segja. Þetta virðist vera prýðilegur árangur, ekki síst ef litið er til þess að á árinu 1998 tók Alþýðubandalagið þátt í kosningabaráttu R-listans í Reykjavík og háði sjálft kosningabaráttu víða um land, ýmist eitt og sér eða í samstarfi við aðra. Vorið 1999 tók Alþýðubandalagið (eða hluti þess) þátt í kosningabaráttu Samfylkingarinnar um allt land en missti á sama tíma mikinn fjölda dyggra flokksmanna yfir til Vinstri grænna. Kosningabarátta er jafnan langdýrasti liðurinn í starfi stjórnmálaflokka og þótt R-listaframboðið og Samfylkingin hafi verið fjárhagslega sjálfstæðir aðilar er ljóst að til þess að safna fé til þeirra hefur að stórum hluta til þurft að leita á sömu mið og Alþýðubandalagið þurfti sjálft að gera til að greiða niður skuldir sínar. Hætt er við að venjulegar greiðslur flokksmanna í styrktarmannakerfi hafi dugað skammt í þessum efnum enda hefur flokksmönnum fækkað jafnt og þétt síðan Ólafur Ragnar Grímsson hóf að undirbúa endalok flokksins. Verður því að ætla að hinn þátturinn í skýringum Margrétar Frímannsdóttur í Morgunblaðinu sl. föstudag vegi lang þyngst, þ.e. að framlög úr Sigfúsarsjóði hafi verið notuð til að greiða mestan hluta skuldanna.

Sigfúsarsjóður var stofnaður 1952 til minningar um Sigfús Sigurhjartarson, þingmann Sósíalistaflokksins og ritstjóra Þjóðviljans. Tilgangur sjóðsins var samkvæmt stofnskrá að „reisa og reka samkomuhús og starfsmiðstöð fyrir íslenska alþýðu og flokk hennar, Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn.“

Árið 1968 var skipulagsskránni breytt um sama leyti og Sósíalistaflokkurinn var lagður niður og Alþýðubandalagið formlega stofnað. Breytingin var á þá leið að sjóðurinn skyldi „reisa og reka húsnæði fyrir Sósíalistaflokkinn eða hvern þann sósíalistískan fjöldaflokk, sem tekur við hlutverki hans að dómi sjóðsins, eða að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi á annan hátt.“ Með því að fé Sigfúsarsjóðs hefur nú verið notað til að greiða niður skuldir Alþýðubandalagsins og auðvelda þannig framgang Samfylkingarinnar er ljóst, að sjóðstjórn telur það vera til þess fallið að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi, enda væri stjórninni að öðrum kosti óheimilt að ráðstafa eignum sjóðsins með þessum hætti. Er ekki hægt að túlka þetta með öðrum hætti en að Samfylkingin sé skilgetið afkvæmi Sósíalistaflokksins (og forvera þess Kommúnistaflokks Íslands – að vísu ekki eingetið) og að hlutverk hennar sé að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi. Hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir marga gamla Alþýðuflokksmenn, sem um áratugaskeið litu á kommúnista sem höfuðandstæðinga sína í íslenskum stjórnmálum. Hljóta þeir að spyrja í hvaða félagsskap þeir eru komnir, bæði með hliðsjón af þessu og eins þegar haft er í huga að ætlast var til að þeir syngju Internationalinn í lok stofnfundar Samfylkingarinnar á liðnu vori.

Þess má að lokum geta neðanmáls, að til þess að afla fjár til styrktar Alþýðubandalaginu hefur Sigfúsarsjóður þurft að hefja sölu húseigna sinna. Er í því sambandi vert að minnast frétta frá haustinu 1998 um að sjóðurinn væri að selja Samtökunum 78 4. hæðina í húsinu Laugavegi 3. Samtökin fengu 9 milljóna króna styrk frá Reykjavíkurborg til kaupanna og verður ekki annað sagt en að R-listamenn í borgarstjórn hafi með því auðveldað félögum sínum í Sigfúsarsjóði að losa fé til að greiða niður skuldir Alþýðubandalagsins. Þess má svo geta að einn helsti forystumaður Samtakanna 78 ár á undanförnum árum er Heimir Már Pétursson, sem um nokkurra ára skeið var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins og einn nánasti samstarfsmaður Margrétar Frímannsdóttur. Hafa fjölmiðlar ekki stundum hrópað „hneyksli!“ af minna tilefni?