Laugardagur 23. september 2000

267. tbl. 4. árg.

Í gær leið bíllausi dagur Helga Péturssonar, Árna Þórs Sigurðssonar og fleiri fulltrúa meirihluta borgarstjórnar án þess að nokkur bíleigandi yrði var við breytingu. Lögregla hér fann ekki mun á umferð frekar en kollegarnir erlendis, nema að vísu þar sem borgaryfirvöld höfðu beinlínis bannað umferð. Enginn hefur áhuga á þessum bíllausa degi og enginn telur ástæðu til að aka bílnum sínum ekki. Til marks um þetta má til að mynda hafa að enginn munur var á notkun starfsmanna ráðhússins eða þingsins á bílastæðum, þau voru jafn full og venjulega. Þessi varð raunin þrátt fyrir að Helgi P. hafi sérstaklega hvatt starfsmenn borgarinnar til að skilja bílinn eftir. En þessi skortur á áhuga borgarstarfsmanna og annarra borgarbúa þarf svo sem ekki að koma á óvart, því Helgi hafði sjálfur ekki meiri trú á eigin átaki en svo að hann gat ekki hugsað sér að nota annan ferðamáta en hinn hryllilega einkabíl sinn. Þetta voðalega farartæki fyllti götur Reykjavíkur á deginum þegar „bíla má hvíla“.

Einhverjum þætti furðulítil þátttaka í átaki þegar forsprakki þess tekur ekki einu sinni þátt, en það á ekki við um meirihluta borgarstjórnar. Meirihlutanum þykir þetta allt með eðlilegasta móti og mun vafalaust bjóða aftur upp á bíllausan dag að ári. Það hefur meira að segja verið sagt frá því að þá verði ef til vill lokað fyrir bílaumferð í miðbænum. Þó gleymdist að láta þess gerið að þessi regla mun ekki eiga að gilda um bíl Helga Péturssonar eða annarra þeirra sem að átakinu standa. Helgi mun að ári bruna glaðbeittur niður lokaðan Laugarveginn.

Ef Helgi og félagar vakna á næstunni og átta sig á að gærdagurinn var algerlega mislukkaður og ef þau átta sig á að skilaboðin með deginum eru algerlega röng, þá er auðvitað hugsanlegt að hætt verði við að halda bíllausa daginn. Í staðinn fyrir að koma þeim röngu skilaboðum áleiðis að loftmengun sé mikið og vaxandi vandamál í Reykjavík, gætu borgaryfirvöld þá haldið sérstakan dag þar sem útskýrt væri að allt horfir til betri vegar í umhverfismálum, meðal annars hvað loftmengun varðar.