Föstudagur 22. september 2000

266. tbl. 4. árg.

Kristinn H. Gunnarsson er duglegur þingmaður. Þessa dagana beinist dugnaður hans að því að reyna að færa heimabyggð sinni, Bolungarvík, innheimtu Byggðastofnunar. Bolvíkingar eru sjálfsagt margir hæstánægðir og ýmsir fleiri úr kjördæmi þingmannsins telja líklega að þarna sé vel að verki staðið og hann sýni að hann hafi hagsmuni kjördæmisins að leiðarljósi. Nú er út af fyrir sig engin leið að taka afstöðu til þess hvort Sparisjóður Bolungarvíkur er vel til þessarar innheimtu fallinn eða ekki og það er aukaatriði í þessu máli. Aðalatriðið er að þarna er þingmaðurinn, sem einnig er formaður Byggðastofnunar, að leika sér með opinbert fé í kjördæmapoti. Ekkert bendir til annars en Sparisjóður Bolungarvíkur sé prýðilegur sparisjóður, en það þýðir þó ekki að hann eigi rétt til slíkrar innheimtu á pólitískum forsendum.

En þetta útspil formannsins er raunar ágætis áminning um það að Byggðastofnun er alls ekki rekin með arðsemi eða hagsmuni almennings í huga og að það ætti að leggja hana niður hið fyrsta. Þeir sem telja að hún skili miklu mættu hafa í huga að arðsemi einnar þekktrar fjárfestingar hennar á Vestfjörðum, nánar tiltekið í Vestfirskri Miðlun, var -100% á skömmum tíma.

Nokkur þræta stendur nú um það hvort tengja eigi saman auglýsingar og veðurfréttir í Ríkissjónvarpinu. Einhverjir álíta ef til vill að auglýsandi muni geta haft áhrif á veðurspá og jafnvel keypt gott veður. Takist að selja gott veður hér á landi væri það svo sem afrek sem tekið yrði eftir. En þessi þræta er algerlega óþörf eins og aðrar þrætur sem tengjast RÚV. Hjá henni má komast með því að selja RÚV og þá yrði ákvörðun um auglýsingar bara innanhússmál fyrirtækisins en ekki hitamál í dagblöðum. Á meðan stofnunin er í almannaeigu er hins vegar ekki skrýtið þó almenningur vilji hafa nokkuð um það að segja hvernig að RÚV er staðið. Þetta þýðir að aldrei verður friður um stofnunina meðan hún er í eigu ríkisins og að deilt verður um öll mál, smá jafnt sem stór.