Fimmtudagur 21. september 2000

265. tbl. 4. árg.

Yfirskrift umhverfisstefnu Strætisvagna Reykjavíkur er: „Almenningssamgöngur eru framlag til umhverfisverndar“. Í samræmi við þetta hljóma auglýsingar SVR: „Ferðumst saman og mengum minna, SVR“ og „Strætó, fyrirmyndar ferðamáti“. Við samanburð á útblæstri frá strætisvögnum SVR og einkabílum kemur hins vegar í ljós að útblástur frá strætó er ekki minni en frá mörgum einkabílum. Það eru eingöngu stórir eyðslufrekir einkabílar með einum farþega sem gefa frá sér meiri koltvísýring á farþegakílómetra en strætó. Stórir einkabílar með tveimur farþegum eða fleiri eru mun „umhverfisvænni“ en strætó ef þessi mælikvarði er notaður. Ökumaður í litlum bensínknúnum einkabíl í Reykjavík „mengar“ minna en strætisvagnafarþegi. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst léleg nýting hinna stóru strætisvagna sem aka um borgina. Í þeim útreikningum sem eftirfarandi samantekt er byggð á er gert ráð fyrir að 9 farþegar séu í vögnunum að meðaltali. Þeir eyða hins vegar 51 lítra af dieselolíu á hundrað kílómetra að meðaltali.

Til að draga úr útblæstri koltvísýrings (og þar með annarri útblástursmengun; SO2, NOx og sóti) frá umferð í Reykjavík þarf að einkavæða SVR og gefa einkaaðilum kost á að anna eftirspurn eftir almenningsvagnaþjónustu á þeim leiðum sem eru arðbærar en af þeim er einnig minnst mengun á farþegakílómetra. Ekki er víst að einkabílum fjölgi mjög við þetta. Nýting þeirra sem fyrir eru getur einnig batnað. Með rekstri sínum á SVR eru borgaryfirvöld að styrkja og niðurgreiða mengandi starfsemi en rekstur SVR kostar borgarsjóð um 525 milljónir króna á ári samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2000. Heildarrekstrarkostnaður SVR á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni er um 38 þúsund krónur. Jafnframt þarf að lækka skatta á bíla almennt til að hraða endurnýjun þeirra en nýir bílar menga mun minna en gamlir.

Í umhverfisstefnu SVR er fullyrt að almenningssamgöngur séu „framlag til umhverfisverndar“. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur jafnvel flokkað útgjöld borgarinnar til SVR sem framlag til umhverfisverndar. Hvergi hefur þó verið rökstutt að starfsemi SVR sé umhverfisvæn. Til þess að hún sé það þarf orkunýting strætisvagnanna að vera betri en orkunýting einkabílsins á hvern farþega. Íslenskt veðurfar með öllum sínum umhleypingum er almenningssamgöngum óhagstætt. Dreifð byggð dregur úr möguleikum á góðri nýtingu strætisvagna. Í greinargerð með tillögu Guðrúnar Ágústsdóttur fyrrverandi forseta borgarstjórnar í borgarstjórn 1. júlí 1999  segir; „Þéttleiki byggðar hér er langt undir þeim viðmiðunum nágrannalanda okkar sem telja að það þurfi um 50 íbúa á hektara til að standa undir góðri almenningsvagnaþjónustu, en hér eru íbúar að jafnaði 25 á hektara.“ Borgaryfirvöld gera sér því grein fyrir örðugleikunum við rekstur almennigsvagna hér en halda rekstrinum engu að síður til streitu. 

Þótt einkabílar hér séu vegna hárra skatta dýrari í rekstri en víðast annars staðar eru óvíða fleiri bílar á mann. Á sama tíma er þjónusta SVR niðurgreidd um 40%. Hver farþegi fær 64 krónur í styrk frá borginni í hvert sinn sem hann stígur upp í vagninn. Þessi niðurgreiðsla hefur lítið að segja og nýting á vögnunum er léleg. Íslendingar eru því tilbúnir til leggja mikið á sig til að eignast bíl og þurfa ekki að ferðast með strætisvögnum. 

Fullyrðingar um að SVR „mengi minna“ standast ekki. Í stefnu SVR segir: „SVR vill stuðla að því að upplýsa almenning um framlag almenningssamgangna til umhverfisverndar.“ Hjón sem ferðast saman í jeppa um borgina menga svipað og hjón sem ferðast með strætisvagni ef útblástur koltvísýrings er notaður sem mælikvarði eins og sjá má af grafinu hér að ofan. Þriggja manna fjölskylda í WW Polo 1.9 diesel SDI gefur aðeins frá sér um 20% þess koltvísýrings sem þrír strætisvagnafarþegar gera í dag. Munu næstu auglýsingar SVR ekki upplýsa almenning um þetta „framlag“ SVR til umhverfisverndar?

Forsendur útreikninga fyrir útblástur frá  SVR og einstökum bifreiðum má finna hér.