Föstudagur 1. september 2000

245. tbl. 4. árg.

Í aprílmánuði árið 1945 birti bandaríska tímaritið Reader’s Digest útdrátt úr hinu mikla verki Hayeks, Leiðinni til ánauðar. Þetta rit rak á fjörur 19 ára gamals reykvísks laganema, Geirs Hallgrímssonar að nafni, sem hreifst mjög af boðskap Hayeks og fékk Ólaf Björnsson til að þýða hann til birtingar í Morgunblaðinu. Vakti þýðingin mikla athygli og deilur þar sem vinstri menn brugðust mjög ókvæða við. Varð úr hörð ritdeila þar sem þeir Geir og Ólafur deildu við vinstri menn um markaðskerfi og áætlunarbúskap, frelsi og sósíalisma. Hélt Geir þá sem löngum síðar fram þeirri skoðun sinni, að sósíalismi og lýðræði væru andstæður sem aldrei gætu farið saman.

Geir Hallgrímsson (1925-1990)
Geir Hallgrímsson (1925-1990)

Fljótlega upp úr þessu varð Geir einn helsti talsmaður ungra sjálfstæðismanna í baráttu þeirra fyrir frjálsum viðskiptum og afnámi hafta auk þess sem hann beitti sér gegn alræði kommúnista í íslensku menningarlífi. Í félagi við sr. Jónas Gíslason og Eyjólf Konráð Jónsson stofnaði hann til bókaforlags sem gaf út rit á borð við 1984 eftir George Orwell og síðar átti hann hlut að stofnun Almenna bókafélagsins. Geir var jafnan einlægur andstæðingur sósíalismans eins og vænta mátti af manni sem alla tíð var sannfærður um gildi einstaklingsfrelsisins. Vinstri stefna átti því aldrei upp á pallborðið hjá Geir Hallgrímssyni, en í viðtali við tímaritið Stefni árið 1982 sagði hann um hana meðal annars:

„Í upphafi birtist stefna vinstri manna gjarnan þannig, að þeir vilja allt fyrir alla gera, en menn gera sér ef til vill ekki strax grein fyrir því, að það verður ekki gert fyrir annað fé en peninga skattborgaranna. Það leiðir til sífellt hærri skattaálaga, fjármunir eru dregnir úr höndum einstaklinga, heimila og fyrirtækja og færðir í fjárhirslur ríkisins. Skrifræðið og Kerfið verða alls ráðandi, um leið og þrengt er að sjálfstæði einstaklinganna. Samhliða dregur úr framleiðslu og lífskjör versna.“

Í stað vinstri stefnu boðaði Geir aðra: „Hún felst í því að draga úr umsvifum hins opinbera og skattaálögum, í því skyni að auka svigrúm einstaklinganna og umráð þeirra yfir aflafé sínu. Við viljum leysa úr læðingi framtak og hugkvæmni einstaklinganna með þeim hætti að þeir sjálfir, í frjálsum samskiptum sín á milli, leysi þau vandamál sem hið opinbera getur aldrei gert fyrir þá. Þannig skapast um leið nýr lífsþróttur og lífsgleði sem er til þess fallin að bæta lífskjörin.“

Geir Hallgrímsson naut lengi mikils trúnaðar, var borgarstjóri í Reykjavík í alls 13 ár og síðar forsætisráðherra á árunum 1974-78. Það var einmitt undir forystu hans sem samningar tókust við Breta um að þeir viðurkenndu rétt Íslendinga til 200 sjómílna fiskveiðilögsögu við Ísland og þarf ekki að hafa mörg orð um hve þýðingarmikil hún hefur reynst. Flestir munu nú viðurkenna að það hafi einkum verið stilling og staðfesta Geirs sem varð til þess að samningar náðust, en mikill hiti og tilfinningaöldur risu í landinu meðan á fiskveiðideilunni stóð og margir reyndu að afla sér vinsælda með því að tala digurbarkalega og hvetja til hinnar mestu hörku.

Eftir kosningarnar 1978 hvarf Geir úr stjórnarforystu og síðari ár stjórnmálaferils hans urðu honum mótdræg á margan hátt. Hann varð fyrir ýmsum áföllum og því sjálfsagt stærstu þegar nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins stóðu að því að mynda vinstri stjórn á bak við félaga sína í febrúar 1980. Geir tók því þó af meiri stillingu en margir aðrir hefðu séð ástæðu til og í raun má segja að hann hafi ætíð verið í þeim fámenna hópi sem hugsar einkum um framgang þeirra hugsjóna sem hann aðhyllist en lætur eigin hag mæta afgangi. Geir var í senn heiðursmaður og einlægur hugsjónamaður og átti því gjarnan misjöfnu gengi að fagna í baráttunni við þá menn sem voru hvorugt. Geir Hallgrímsson lést í Reykjavík 1. september 1990.