Fimmtudagur 31. ágúst 2000

244. tbl. 4. árg.

Vefþjóðviljinn hefur áður fjallað um veglegar og smekklegar útgáfur Vöku-Helgafells á verkum Halldórs Laxness. Enn er ástæða til að segja nokkur orð um slíka útgáfu. Fyrir nokkru ákváðu forsvarsmenn Vöku-Helgafells að safna saman á eina bók öllum stuttum sögum Halldórs, en slík bók hafði ekki áður komið út. En þar sem að skáldið sjálft var fallið frá gátu þeir ekki leitað til þess um hugmynd að nafni á safnið, og urðu því að treysta á eigið hyggjuvit. Það virðist hafa gefið góða raun, því þeir ákváðu að láta safnið einfaldlega heita „Smásögur“. Það var prýðishugmynd.

Svo augljóst sem þetta nafn er, þá hafa verið til rithöfundar sem hafa ekki viljað nota það. Á sjötta áratugnum gaf til dæmis einn slíkur út bók með stuttum sögum, bók sem hann nefndi „Sjö töframenn“. Rithöfundurinn skrifaði formála fyrir bókinni og lauk honum á þessum orðum: „Athugasemd: ég hef ekki viljað kalla þessa bók með safnheitinu „smásögur“, mér finst það dálítið menníngarlaust; það virðist hafa verið fundið upp einhverntíma þegar menn höfðu gleymt að þáttur hefur jafnan verið haft á íslensku um stuttar sögur. Gljúfrasteini á nýári 1954, H.K.L.“

Nú hafa samtökin „Vímulaus æska“ komið upp um ólöglega áfengisauglýsingu. Hér mun vera um að ræða heimasíðu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins en þar munu vera birtar myndir af áfengisflöskum og jafnvel stutt lýsing á innihaldinu. Þetta er hin versta óhæfa og Vefþjóðviljinn hvetur alla til að forðast þessa hættulegu síðu. Hver veit hvað kann að gerast ef menn álpast þangað inn og sjá þessar myndir.