„Margir vinstrimenn virðast ganga út frá að fátækt sé óumbreytanlegt einkenni á fólki. Hann er ljóshærður, fátækur og hávaxinn eða hún er bláeyg, fátæk og grönn. Þeim er lífsins ómögulegt að skilja að það geti verið markmið að fækka fátækum með því að auka tekjur þeirra eða menntun heldur einblína þeir á þá lausn að gefa þeim bætur. Halda þeim fátækum.“ sagði í grein Péturs Blöndals þingmanns í DV í vikunni. Pétur ritar einnig um gagnrýni sem Ögmundar Jónassonar á ríkisstjórnina fyrir að „lækka“ barnabætur. Barnabætur úr ríkissjóði hafa reyndar lækkað, það er rétt hjá Ögmundi, en án þess að reglum um þær hafi verið breytt. Ástæðan er sú að bæturnar eru tekjutengdar og eftir að atvinnuástand batnaði og laun fóru að hækka eiga færri „rétt“ á slíkum bótum. Aftur á móti má velta því fyrir sér hvort Pétur hafi haft ofangreind orð sín til hliðsjónar þegar hann studdi mál nr. 623 á Alþingi í vor um félagslegar bætur til foreldra. Þessar bætur eru þeirrar gerðar að þeir fátæku fá minnstu bæturnar en þeir ríku þær mestu. Þær miða frekar að því en nokkrar aðrar bætur að „halda þeim fátækum“ sem eru fátækir fyrir.
Ef ýmsar bætur úr ríkissjóði hafa lækkað vegna hærri tekna almennings er enn furðulegra að útgjöld ríkissjóðs hafi vaxið svo mikið á síðustu árum sem raun ber vitni. Það leiðir aftur hugann að fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sem nú er verið að leggja lokahönd á. Í umræðum undanfarna daga hefur hvað eftir annað verið fullyrt að um niðurskurð á hinu og þessu sé að ræða. Staðreyndin er hins vegar sú að fjárlagafrumvarpið mun að öllum líkindum fela í sér útgjaldaaukningu frá fyrra ári. Ef til vill verða einhverjar framkvæmdir, sem einhverjir menn höfðu villta útgjaldadrauma um, að bíða betri tíma en því miður er allt útlit fyrir að fjármálaráðherra haldi áfram á þeirri óheillabraut að belgja ríkið út.
Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásta Möller, ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hún leggur til að eignarskattar verði afnumdir. „Eignarskattur er ranglátur skattur og felur í sér hægfara eignaupptöku á eignum einstaklinga“, segir Ásta og bendir á að skatturinn beinist gegn þeim sem með ráðdeild og sparnaði greiði upp skuldir sínar. Þetta er þörf ábending frá Ástu. En það er hins vegar spurning hvort þeir þingmenn sem á vordögum studdu mál nr. 623, sem felur í sér mestu útgjaldaaukningu hins opinbera hin síðari ár, geti vænst þess að þeir séu teknir alvarlega þegar þeir ræða um nauðsyn þess að lækka skatta.