Föstudagur 18. ágúst 2000

231. tbl. 4. árg.

Árni Steinar Jóhannsson
Árni Steinar Jóhannsson
Jette Gottlieb
Jette Gottlieb

Ekki er öll vitleysan eins. En sumt er óneitanlega svipað, jafnvel milli landa. Í ýmsum löndum virðist til dæmis vera hægt að ná sér í einkunnina hugsjónamaður með því einu að boða nægilega furðulegar hugmyndir um umhverfismál, ekki síst með því að vera nógu bölsýnn. Hér hafa liðsmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs tekið þetta hlutverk að sér en í málefnaskrá þess flokks segir: „Mannkynið þarf á komandi öld að þreyta örlagaglímu við aðsteðjandi vistkreppu. Barátta almennings og þjóða um andrými, auðlindir og rétt til mannsæmandi lífs getur orðið afar hörð.“ Í Danmörku starfar stjórnmálaflokkur sem ber nafnið Enighedslisten de röd-grönne. Í stefnu flokksins er að finna bölmóð og heimsendaspár á borð við það sem VG býður upp á. Helstu stefnumál danska flokksins miða að því að stjórna fólki í smáatriðum, ekki síst hvernig fólk ferðast. Þetta kom glögglega fram í nýlegu viðtali danska tímaritsins Ud&Se við Jette Gottlieb, þingmann rauðgrænna á danska þinginu. Í viðtalinu viðurkennir þingmaðurinn sakbitinn að „nota mótorhjól sitt af og til þótt það sé alls ekki réttlætanlegt vegna umhverfisins“ og leggur mikla áherslu á að almenningur noti almenningssamgöngur.

 Árni Steinar Jóhannsson, þingmaður VG hefur einnig lagt sig mjög fram um að fé sé ausið í almenningssamgöngur. Á Alþingi í vetur mælti hann í annað sinn fyrir þingsályktunartillögu um að strætó gangi á tveggja tíma fresti milli Svalbarðseyrar og Grenivíkur og ekki síður á hinni fjölförnu leið milli Kristness og Laugalands. Tillagan gerir ráð fyrir að Byggðastofnun sjái um reksturinn og almenningur um kostnaðinn og er þá komin fram skýringin á því hvers vegna þessi samgöngumáti er kallaður almenningssamgöngur. Til að gæta sanngirni er rétt að taka það fram að í þingsályktunartillögunni segir að þetta verði „tilraunaverkefni“. Til fimm ára!