Fimmtudagur 17. ágúst 2000

230. tbl. 4. árg.

Það var skömmu fyrir þingkosningar í fyrra sem Finnur Ingólfsson þáverandi iðnaðarráðherra kynnti áætlun um að kaupa stuðning kvikmyndagerðarmanna með því að leggja fram frumvarp um sérstakar skattaívilnanir fyrir kvikmyndagerð. Kvikmyndagerð tilheyrir skemmtanaiðnaðinum og gott ef ekki líka „þekkingariðnaðinum“ og því ekki ólíklegt með því að hossa henni megi ná í nokkur atkvæði. Í raun eru þó ívilnanir sérstakra fyrirtækja eða atvinnugreina eins og þessar ekkert annað ríkisstyrkur sem önnur fyrirtæki bera kostnaðinn af í hærri sköttum.

Um forsögu þessa máls sagði í Vef-Þjóðviljanum hálfu ári áður: „Nú um daginn kom hingað til lands starfsmaður erlends kvikmyndafyrirtækis og gekk á fund ráðherra og að sjálfsögðu fjölmiðlamanna. Erindi mannsins hingað mun hafa verið það, að greina frá því að fyrirtæki það er hann vinnur hjá, væri af góðvild sinni reiðubúið að taka hér upp nokkrar kvikmyndir, gegn því að hljóta hér „skattaívilnanir“. Fóru fréttamenn svo til Þorfinns Ómarssonar framkvæmdastjóra Ríkiskvikmyndasjóðs og var varla á honum að heyra að nokkurt mál í veröldinni væri mikilvægara en þetta.“ Finnur lét svo hafa eftir sér að málið væri „mjög spennandi“ og þarna gæti „íslenskt hugvit“ nýst. Vef-Þjóðviljanum þætti gaman að heyra hvaða fyrirtæki það eru hér á landi sem nýta ekki hugvit. Og hvaða fyrirtæki gætu hafið starfsemi hér án þess að hugvit kæmi við sögu? (Bannað að nefna stjórnmálaflokka eins og Framsóknarflokkinn.)

Í Degi-Tímanum í gær er það rifjað upp að þessi lög áttu að leiða til þess að Ísland yrði „Mekka kvikmyndagerðarinnar“ en ekkert hefur orðið úr því þar sem eftirlitsstofnun ESA hefur gert athugasemd við það að skattaendurgreiðslan á aðeins að koma til ef kostnaður fellur til á Íslandi.