Laugardagur 19. ágúst 2000

232. tbl. 4. árg.

Ástarsambandi bresks atvinnulífs og verkamannaflokksins þar í landi er lokið að mati tímaritsins The Economist. Atvinnulífinu virðist hin nýja ímynd, sem Tony Blair hefur tekist að draga upp af verkamannaflokknum, stangast orðið á við raunveruleikann. Einkum er talið að aukið skrifræði eigi þarna hlut að máli, en einnig minni áhugi atvinnulífsins á evrunni.

Nýleg könnun sem gerð var fyrir NatWest Bank sýnir að áhyggjur smárra fyrirtækja af óhóflegri reglusetningu hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum. Breska verslunarráðið hefur brugðist við aukinni reglusetningu með því að hefja baráttu gegn skrifræði. Útreikningar þess sýna að samanlagður kostnaður þess að fylgja þeim nýju reglum sem Verkamannaflokkurinn hefur sett til þessa, muni fara yfir sem svarar þúsund milljörðum króna fyrir næstu kosningar. Þetta þýðir að hinn nútímalegi jafnaðarmannaflokkur í Bretlandi hefur aukið kostnað vegna reglugerða um meira en 20.000 krónur á hvert mannsbarn í landinu á kjörtímabilinu. Ef nútímalegur jafnaðarmannaflokkur væri við stjórnvölinn hér á landi og stæði sig jafn vel má reikna með að hann hækkaði kostnað atvinnulífsins um á að giska fimm milljarða króna á einu kjörtímabili.

Ýmsar nýjar reglur eru nefndar sem dæmi í þessari umræðu um aukið skrifræði í Bretlandi. Nefndar eru reglur um sérmerkingu erfðafræðilega breyttra matvæla á veitingastöðum, verðmerkingar og vinnutíma. Það sem vekur þó sérstaka athygli í ljósi nýlegrar lagasetningar hér á landi er óánægja atvinnulífsins breska með aukinn „rétt“ til foreldraorlofs og mæðraorlofs og andstaða við auknar greiðslur til fólks sem kýs að fara í slíkt orlof. Þar, líkt og hér, gerir atvinnulífið sér vel grein fyrir þeim kostnaðarauka sem slík „réttindi“ hafa í för með sér, en þar líkt og hér þarf atvinnulífið líka að kljást við – og jafnvel lúta í lægra haldi fyrir – nútímalegum jafnaðarmönnum sem hafa komið sér fyrir í ráðuneytum á röngum forsendum.