Mánudagur 14. ágúst 2000

227. tbl. 4. árg.

Rætt var við Geir H. Haarde fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í gær en um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á fjárlagafrumvarp næsta árs. Í upphafi viðtalsins bendir Geir réttilega á að tekjuafgangur ríkissjóðs sé um 3,7% af þjóðarframleiðslu sem sé með því mesta sem þekkist hjá ríkjum OECD. En þrátt fyrir þennan mikla afgang segir Geir stuttu síðar: „Ég held hins vegar að almenn skattalækkun við núverandi aðstæður væri ekki skynsamleg.“ Og hann bætir svo við síðar: „Það teldi ég ekki ráðlegt á meðan uppsveifla er jafnmikil í efnahagslífinu og nú er.“

Ráðherrann upplýsir ekki nánar við hvaða aðstæður væri rétt að lækka skatta. Vart verður það gert þegar halli verður á ríkissjóði. Það er þvert á móti hefð fyrir því að tekjuskattshlutfallið sé hækkað í hallæri eins og þróun þess á árunum 1989 til 1996 ber með sér en þá var hlutfallið hækkað nær látlaust og fór úr 35,20% í 41,94%. Það er sumsé ekki búið að vinda ofan af nema helmingi þeirra skattahækkunar sem varð á þeim árum þar sem uppsveiflan í efnahagslífinu var ekki jafnmikil og nú er.

Fjármálaráðherra má líka gera sér grein fyrir því að aðrir flokkar kunna að koma að stjórn landsins í framtíðinni, jafnvel flokkar sem hafa enn meiri áhuga á að auka útgjöld ríkisins en þeir sem eru nú við völd. Það væri laglegt að núverandi stjórnarflokkar gengju þannig frá verki að metafgangur væri á ríkissjóði, allar skuldir greiddar og skattar enn jafnháir og nú. Þá gætu útgjaldaflokkarnir gengið að digrum sjóðunum og veitt vel á alla kanta. Þá verður þess skammt að bíða að halli verði á ríkissjóði og „ástæða“ til að hækka skattana.

Og það er ekki nóg með að þeir geti gengið að skuldlausu búi og háu skatthlutfalli heldur segir Geir það koma til greina að ríkissjóður noti rekstrarafgang til „uppbyggingar arðgefandi eigna í útlöndum“. Ríkissjóður ætlar sem sagt að selja hlut sinn í íslenska Landssímanum og nota andvirðið til að kaupa í Telia og afganginn af Landsbankanum og Búnaðarbankanum til kaupa í Barings bankanum eða BCCI!
Það er engu líkara en að ráðherrann leiti logandi ljósi að leiðum til að þurfa ekki að lækka skattana.