Helgarsprokið 13. ágúst 2000

226. tbl. 4. árg.

Múrinn á afmæli í dag. Það er að segja, leifarnar af Múrnum eiga afmæli í dag. Þó hann sé að mestu horfinn og leifar hans geri engum mein þá er rétt að minnast Múrsins öðru hverju. Ásamt gasklefum nasista er hann nefnilega skýrasta tákn sögunnar um það hversu langt má komast í skipulagðri mannvonsku þegar illmenni leggja sig fram.

Það var klukkan tvö að nóttu aðfaranótt 13. ágúst 1961 sem austur-þýski herinn hóf að loka með öllu landamærunum að Vestur-Berlín. Vikurnar á undan höfðu um 1500 manns flúið vestur á degi hverjum og nú höfðu stjórnvöld fengið nóg. Hermenn með alvæpni dreifðu sér um borgarmörkin, vörubílsförmum af steinstöplum og gaddavír var hrúgað upp og í dagrenningu náði víggirtur múr nær þvert yfir borgina. Milljónir manna höfðu verið lokaðar inni í kommúnistaríki, fjarstýrðu frá Moskvu. Næstu áratugi mátti þetta fólk búa við örbirgð og ógnarstjórn eins og aðrar þjóðir Austur-Evrópu. Múrinn stóð í tæplega fjörutíu ár og upp við hann týndu hundruð Austur-Þjóðverja lífinu, fólk sem reyndi að flýja til vesturs í gegnum kúlnahríð frá samlöndum sínum í varðturnunum.

Þó aðeins sé rúmur áratugur frá því Múrinn var brotinn niður finnst nú mörgum sem Þýskaland hafi frá stríðslokum verið eitt ríki og þar hafi verið tiltölulega eðlilegt stjórnarfar. Er það í ætt við margt annað skeytingarleysi sem margir sýna gagnvart þeim óhugnanlegu örlögum sem milljónum manna voru búin í Austur-Evrópu, allt fram á þennan áratug. Margir virðast þeirrar skoðunar að ógnarstjórn sósíalista fyrir austan járntjald sé slík fornaldarsaga að óþarfi sé með öllu að ræða hana. Sérstaklega þykir ósvífið að hafa orð á því að á Vesturlöndum – þar á meðal hér á landi – hafi alls kyns stjórnmálamenn og áhrifamiklir menningarvitar haft velþóknun á stjórnarherrum Austur-Evrópu, rekið erindi þeirra eftir mætti og sótt þá heim til skrafs og ráðagerða.

Austur-þýskir hermenn gæta Múrsins á Trabant herbíl árið 1987
Austur-þýskir hermenn gæta Múrsins á Trabant herbíl árið 1987

Þó mörgum þyki hinn versti „kaldastríðshugsunarháttur“ að vilja ekki loka augunum fyrir slíkum staðreyndum, þá er nauðsynlegt að þeim verði haldið til haga. Ef menn neita að horfast í augu við slíkar staðreyndir eða láta það eftir sér að gleyma þeim jafnskjótt og á þær er minnst, þá verður hættan meiri á því að þeir hópar styrkist sem horfa með söknuði til Múrsins. Því þó ótrúlegt megi virðast eru víða til menn sem ekkert virðast hafa lært af verstu atburðum sögunnar. Víða í Evrópu, og þá einkum í Þýskalandi, starfa til dæmis hópar sem helst vilja taka upp þráðinn þar sem nasistar urðu frá að hverfa í stríðslok. Venjulegt siðmenntað fólk hefur vitaskuld skömm á slíkum hópum og það eins þó sumir þeirra kunni að hafa þær smávægilegu málsbætur að þekkja ekki nægilega til sögunnar. Aðrir eru til sem undir niðri sakna Múrsins og þeirra tíma þegar Múrinn hélt milljónum manna í fangabúðum sósíalismans. Slíkir hópar eru engu betri.