Laugardagur 12. ágúst 2000

225. tbl. 4. árg.

Bílbeltanotkun var tekin til umfjöllunar  í tveimur blaðagreinum í Morgunblaðinu í vikunni. Í annarri greininni var því haldið fram að rétt væri að neyða alla menn til að festa á sig beltin, en í hinni greininni, sem Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður ritaði, var hinu gagnstæða haldið fram, þ.e. að mönnum ætti að vera í sjálfsvald sett hvort þeir festu á sig beltin eða ekki. Jón Steinar tók fram að hann teldi sjálfur öruggara að festa á sig belti og gerði það, en hann væri jafnframt þeirrar skoðunar að aðrir ættu að ákveða þetta fyrir sjálfa sig. Þetta er mjög mikilvægt atriði sem allt of lítið er hugað að. Þeir sem stjórnlyndir eru og vilja hafa vit fyrir fólki, telja yfirleitt nóg að þeir séu sannfærðir um ágæti einhverrar hegðunar til að neyða henni upp á aðra. Þá sem skortir þessa tilhneigingu til að ráðskast með aðra, sem sagt þeir sem kalla mætti frjálshyggjumenn, telja á hinn bóginn að ríkið eigi ekki að neyða menn til ákveðinnar hegðunar þó sú hegðun kunni að vera mönnunum sjálfum holl.

Jón Steinar útskýrði skoðun sína hvað þetta varðar með eftirfarandi hætti í blaðagreininni: „Ég hef þá lífsskoðun, að meginregla um frelsi sem gerir ráð fyrir að hver og einn taki ábyrgð á eigin lífi, sé farsæll leiðarvísir við lagasmíð og í lífinu almennt. Ég tel þessa reglu siðferðislega rétta í því tilliti, að samfélagið er myndað af jafnréttháum einstaklingum, þar sem einn á ekki að hafa boðvald yfir öðrum um hans eigin málefni. Reglan leiðir að mínum dómi líka til farsælla mannlífs, t.d. með færri slysum, vegna þess að meginreglan kennir mönnum að taka ábyrgð á sjálfum sér. Enginn er betur til þess fallinn að taka ákvarðanir um velferð manns en hann sjálfur. Stjórnlyndur maður er annarrar skoðunar. Hann telur réttlætanlegt að taka ákvörðunarvald um eigin mál af mönnum af minnsta tilefni.“

Augljóst er að ekki er ástæða til að lögbinda notkun bílbelta til að tryggja öryggi annarra en þess sem bílbeltið er spennt eða ekki spennt á. Annað fólk á enga hagsmuni af því að maður í bíltúr festi á sig belti. Að vísu er því stundum haldið fram að með því að lögbinda menn í beltin lækki slysakostnaður ríkisins. En þar með eru menn að réttlæta eina vitleysuna, þ.e. skyldunoktun bílbelta, með annarri vitleysu þ.e. þeirri að ríkið greiði sjúkrakostnað manna. Líklega er fátt sem hvetur menn eins til óábyrgrar og heilsuspillandi hegðunar en einmitt sú staðreynd að ríkið greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu. Hitt er meira að segja að hugsanlegt, að hagsmunir bílstjórans og annarra fari alls ekki saman, þ.e. að aðrir séu betur settir ef bílstjórinn ekur óspenntur. Hvernig má það vera? Jú, ef spenntur bílstjóri telur sig öruggari en óspenntur, kann að vera að hann aki hraðar og glæfralegar en hinn óspennti. Þetta þýðir að öðrum vegfarendum kann að stafa meiri hætta af hinum spennta en hinum óspennta. Raunar eru til rannsóknir sem styðja þessa kenningu og ef þessi sjónarmið eru höfð í huga verður lögbinding bílbeltanotkunar enn óeðlilegri en ella.