Þriðjudagur 15. ágúst 2000

228. tbl. 4. árg.

Í kafla um uppruna þjóðernissósíalisma í bók sinni Leiðinni til ánauðar veltir Hayek því fyrir sér hvernig þjóðernissósíalistum tókst að afla fylgis meðal mikils meiri hluta Þjóðverja á fjórða áratugnum. Hann lýsir því hvernig sósíalistar og þjóðernissinnar sameinuðust í andúð sinni á frjálshyggju og markaðsbúskap. Sósíalistar hafi lagt grunninn að veldi Hitlers með því að ala á tortryggni gagnvart gróðabralli kaupsýslumanna. „Samfylking markaðsandstæðinga til hægri og vinstri, róttækra og íhaldssamra samhyggjumanna, hrakti frjálshyggju út úr Þýskalandi“, segir Hayek.

Nú eru flestir sammála um að sósíalismi eigi lítið skylt við hægri stefnu í stjórnmálum en hvernig stendur á því að þjóðernissósialismi (eða nasismi) er iðulega flokkaður til hægri? Hvernig stendur á því að sósíalismi kryddaður með þjóðrembu er skyndilega kominn yfir á hægri vænginn? Fjölmiðlar flytja jafnvel fréttir af öfgaflokkum „til hægri“ í Þýskalandi og ódæðisverkum þeirra og segja á sama tíma frá því að austur-þýska leyniþjónustan STASI var fjárhagslegur bakhjarl slíkra flokka á meðan kommúnistar fóru með völdin að baki Járntjaldsins.

Í gærkvöldi mun maður nokkur hafa tekið trúanlegan þann áróður innheimtudeilar Ríkisútvarpsins að Ríkisútvarpið sé „þjóðareign í þína þágu“ og ákveðið að sækja sinn hlut með því að ná sér í nokkra víra í rafmagnsinntaki í húsi Ríkisútvarpsins við Efstaleiti. Þetta hafði þær afleiðingar í för með sér að allar útsendingar hljóðvarps og sjónvarps Ríkisútvarpsins, þ.e. öryggistækja landsmanna, lognuðust út af í um klukkustund. Í frétt á mbl.is sagði eftirfarandi um þennan atburð og eftirmála hans: „Í tilkynningu sem lesin var í útvarpinu um leið og útsending hófst á ný kom fram að maður sem ekki er með réttu ráði komst að rafmangsinntaki fyrir húsið og tók rafmagnið af.“ Ef rétt er frá sagt í fréttinni hefur Ríkisútvarpið nú tekið að sér að úrskurða um andlegt ástand manna. Þeir sem gera eitthvað á hlut Ríkisútvarpsins eru umsvifalaust úrskurðaðir geggjaðir og tilkynning um það lesin í útvarpinu.