Mánudagur 31. júlí 2000

213. tbl. 4. árg.

Ríkissjónvarpið efndi til fréttaskýringarþáttar í gærkvöldi. Var þar fjallað um embætti forseta Íslands og stöðu þess innan stjórnskipunarinnar. Urðu umræður afar skynsamlegar enda hinn vandaði fræðimaður, Svanur Kristjánsson, meðal þátttakenda. Er ástæða til að hrósa Ríkissjónvarpinu sérstaklega fyrir að hafa haft vit á því að kalla á Svan enda er hann öllum hlutlausari þegar kemur að Ólafi Ragnari Grímssyni og störfum hans.

Svanur hélt hinu og þessu fram í þættinum. Nefna má sem dæmi, að hann lagði mjög út af því að forseti Íslands væri þjóðkjörinn og að það veitti honum (þ.e. forsetanum, ekki Svani) makt og styrk. Væri þetta sérstaklega mikilvægt þegar kæmi að umræðum um hugsanlegan rétt forseta til að neita að rita undir lög sem Alþingi hefði sett. Sagði Svanur að þegar stofnað var til lýðveldis hefðu þingmenn ætlað sér að kjósa sjálfir forsetann en „þjóðin“ hefði ekki látið þá komast upp með það og krafist þess að forsetinn yrði þjóðkjörinn. Við þessi orð Svans gerðist fáheyrður atburður, stjórnandi þáttarins spurði hvað hann hefði fyrir sér í þessu, hvernig „þjóðin“ hefði sett fram þessa kröfu.

Svanur átti í svolitlum erfiðleikum með að svara þessu. Þó var hann á því að þjóðin hefði ályktað um þetta og hann nefndi sérstaklega til sögunnar tímaritið Helgafell sem hefði barist af krafti í þessu máli. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að fjalla hér um „ályktanir“ eða aðrar samþykktir „þjóðarinnar“ en hann ætlar að segja örfá orð um tímaritið Helgafell. Það er alveg rétt að tímaritið barðist af krafti fyrir sínum málstað árin fyrir lýðveldisstofnun. Afstaða tímaritsins – þ.e. ritstjóra þess, skáldanna Magnúsar Ásgeirssonar og Tómasar Guðmundssonar – til lýðveldisstofnunar í júní 1944 var hrein og klár. Helgafell var beinlínis andvígt henni. Tímaritið flutti boðskap lögskilnaðarmanna sem töldu Íslendingum lítinn sóma í því að segja skilið við sambandsþjóð sína, Dani, meðan Danmörk var hersetin.

Það er hæpin kenning að tímaritið Helgafell hafi staðið fyrir tilfinningaþrunginni krossferð fyrir þjóðkjörnum forseta Íslands. Helgafell barðist fyrir því að sambandsslitum yrði slegið á frest. Og jafnvel þó kenningin hefði verið rétt þá kæmi það „vilja þjóðarinnar“ ekki við. Í þessu samhengi má hins vegar geta þess að eftir lýðveldisstofnun birti tímaritið grein þar sem fjallað var um hugsanlega nýja stjórnarskrá og bæði var minnst á þjóðkjör og neitunarvald. Sagði þar meðal annars: „Sumir vilja láta forsetann hafa víðtækt neitunarvald, vegna þess að hann er þjóðkjörinn. En slíkt kemur ekki til mála eins og nú er, þar sem forseti getur náð kosningu með fylgi tiltölulega lítils hluta allra atkvæðisbærra manna. Það samrýmist ekki heldur fyllsta þingræði.“

En úr því menn eru að tala um þjóðkjörna forseta þá er rétt að taka eitt fram: Það er vafasöm sagnfræði og óviðkunnanleg gagnvart meirihluta Íslendinga að halda því fram að á Bessastöðum sitji forseti sem íslenska þjóðin hafi kosið. Núverandi forseti var kosinn í forsetakosningum sumarið 1996. Mikill meirihluti kjósenda kaus alls ekki Ólaf Ragnar Grímsson. Og lái honum hver sem vill.