Ólafur Ragnar Grímsson lét af embætti forseta Íslands á miðnætti. Miðdegis í dag mun hann taka við embættinu á ný, en fram að þeim tíma gegna handhafar forsetavalds störfum forseta. Vef-Þjóðviljinn, sem veitt hefur forsetanum dyggan stuðning og lagt sig fram um að þóknast honum, hlakkar til þegar Ólafur tekur við á ný og treystir á áframhaldandi ánægjulega samvinnu við hann.
Eftir því sem þekking manna á valdatíma Stalíns í Sovétríkjunum hefur aukist, þeim mun öruggari sess hefur Stalín fengið, sem mesti fjöldamorðingi sögunnar. Vaxandi fjöldi sannana bendir þó til þess að Mao Zedong hafi á fyrstu tólf árum valdaferils síns verið stórtækari en Stalín.
Tvær nýlegar bækur um kommúnismann í Kína renna frekari stoðum undir að Stalín hafi ekki vermt fyrsta sætið lengi. Önnur bókanna, Hungry Ghosts: Mao’s Secret Famine (New York: Free Press, 1996) eftir Jasper Becker, fjallar um stærstu einstöku mannfórn Maos, Stóra stökkið (the Great Leap Forward). Með stóra stökkinu vildi Mao hraða þróun Kína til hreinræktaðs kommúnisma með „nýrri efnahagsstefnu“ í anda Leníns, studdri af iðnvæðingaráætlunum Stalíns. En ætlun Maos var að útrýma með öllu hverskonar einstaklingsframtaki og stofna þess í stað „“samyrkjubú fólksins“. Til grundvallar Stóra stökkinu lá sú skoðun Maos að hagfræði og lögmál vísinda væru borgaralegur áróður. Til að undirstrika þetta setti kommúnistaflokkurinn fram nýtt lögmál vísinda: „Undir leiðsögn byltingarstjórnarinnar eru fólkinu allir vegir færir.“ Árið 1979, þegar kínversk stjórnvöld opnuðu dyr sínar að hluta fyrir Vesturlöndum, kom í ljós að Stóra stökkið hafði dregið til dauða á bilinu 30-60 milljónir manna, á árunum 1958 -1961.
Hin bókin, Autocratic Traditions and Chinese Politics (New York: Cambridge University Press, 1993) eftir Zhengyuan Fu, setur kínverskan kommúnisma í stærra sögulegt samhengi og færir fyrir því rök að margt hafi verið líkt með Kína keisaratímans og Kína kommúnismans því hvorttveggja hafi sett einvaldinn í öndvegi og ofar lögum og verið vísvitandi skeytingarlaus um mannslíf. Hann bendir meðal annars á að kínverska áróðursmaskínan hafi málað Mao sem hinn góðviljaða keisara og útskýrt allt sem aflaga fór sem annaðhvort verk spilltra embættismanna sem hafi misnotað traust hins umhyggjusama einvalds eða sem hermdarverk stéttaróvina. Fu bendir á að viðtekin viðbrögð fólks við slæmum fréttum hafi verið að segja eitthvað á þessa leið: „Ef aðeins Mao formaður hefði vitað af þessu, þá hefði þetta aldrei gerst.“ Fu bendir einnig á að þjóðernishyggja hafi verið og sé enn, ein þeirra stoða sem kommúnisminn í Kína byggir á.