Helgarsprokið 30. júlí 2000

212. tbl. 4. árg.

Þeir hjá „Félagi leiðsögumanna“ eru ekki ánægðir. Undanfarið hafa fjölmiðlar nefnilega sagt frá slysi sem varð á Langjökli síðastliðinn sunnudag og sagt að þar hafi leiðsögumaður farið fyrir hópi ferðamanna. Og þetta eru félagsmenn í „Félagi leiðsögumanna“ ekki ánægðir með. Þeir segja að einmitt þeir séu hinir einu leiðsögumenn Íslands og hafa sent frá sér sérstaka fréttatilkynningu þess efnis.

Í tilkynningunni er látið að því liggja að starfsheitið „leiðsögumaður“ sé lögverndað og bundið við þá eina sem hafa lært sérstakt námsefni í tilteknum skóla: „Af þessu tilefni bendir Félag leiðsögumanna á að leiðsögumenn útskrifast úr Leiðsöguskóla Íslands sem starfar samkvæmt lögum. Menntun leiðsögumanna fer fram samkvæmt námskrá menntamálaráðuneytisins og er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna … En rétt skal vera rétt. Leiðsögumenn eru þeir sem hafa hlotið lögformlega menntun leiðsögumanna frá Leiðsöguskóla Íslands – og aðrir ekki. Þegar fjölmiðlar síðan fjalla um þá starfsemi sem fram fer í jöklum og fljótum væri nær að tala um sleðastjóra, leiðbeinendur, hópstjóra eða starfsmenn viðkomandi fyrirtækja“.

En þessar kenningar félagsins eru hæpnar svo ekki sé meira sagt. Vefþjóðviljinn skorar á „Félag leiðsögumanna“ að benda á þau lög sem binda starfsheitið leiðsögumaður við þá sem lokið hafi námi við Leiðsöguskóla Íslands (sem er eins vetrar nám sem fer fram í Menntaskólanum í Kópavogi). Þangað til það hefur tekist leyfir Vefþjóðviljinn sér að líta svo á að þessar kenningar séu hrein markleysa.

Blaðið vill hins vegar til gamans benda á, að löggjafinn hefur reyndar notað starfsheitið „leiðsögumaður“ og það mjög nýlega. En það var bara ekki í nokkru samhengi við Leiðsöguskóla Íslands eða nemendur hans. Til eru lög nr. 34/1993 og fjalla þau um leiðsögu skipa. Þar segir t.d. í 3. gr. að sá geti orðið „leiðsögumaður“ sem: sé 25-65 ára að aldri, hafi fullnægjandi heilbrigðisvottorð, hafi lokið 2. stigs skipstjórnarnámi eða samsvarandi námi, hafi siglt sem skipstjóri eða stýrimaður um það svæði sem löggildingin nær til og sé nákunnugur siglingaleiðum þar og hafi lokið námskeiði til að verða leiðsögumaður eins og nánar segi í reglugerð. (Og svo má geta þess að samkvæmt 3. kafla reglugerðar nr. 320/1998 sér Stýrimannaskólinn í Reykjavík um „námskeið fyrir leiðsögumenn“.)

Rétt skal vera rétt. Starfsheitið „leiðsögumaður“ á ekki eingöngu við þá sem sem hafa hlotið lögformlega menntun leiðsögumanna frá Leiðsöguskóla Íslands. Vefþjóðviljinn hvetur löggjafann til þess að standa fast gegn öllum tilraunum þrýstihópa til löggildingar starfsgreina, eins og blaðið hefur áður gert. Þá hvetur Vefþjóðviljinn eindregið til þess að felldar verði niður þær löggildingar sem ístöðulitlir stjórnmálamenn hafa veitt áhrifamiklum þrýstihópum undanfarin ár. Af ýmsu er að taka en hér skal sérstaklega nefnd löggilding heitisins „framhaldsskólakennari“.