Miðvikudagur 28. júní 2000

180. tbl. 4. árg.

Á nokkrum dögum hafa ritstjóri DV, prófessor við Háskóla Íslands, barnalæknir og aðstoðarlandlæknir kynnt landsmönnum með blaðaskrifum röksemdir fyrir því að leyfa sölu annarra fíkniefna en tóbaks og áfengis. Þetta er athyglisvert enda hafa þeir fengið það óþvegið hingað til sem kynnt hafa slík rök og málflutningur af þessu tagi ekki þótt samræmast þeim pólítíska rétttrúnaði sem allir eiga að lúta í dag. Auk þess var í Málinu á Skjá 1 í gærkvöldi rætt við Hauk Örn Birgisson laganema um þessi mál og sagði hann, að þeir, sem láti sig heilsu fíkniefnaneytenda varða, hljóti að berjast fyrir því að leyfð verði sala fíkniefna í lyfjaverslunum til að koma í veg fyrir að neytendur þurfi að kaupa efni í álpappír á götuhornum án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir innihaldi þeirra eða styrk.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir og Björn Hjálmarsson barnalæknir viðruðu svipuð sjónarmið í grein í Morgunblaðinu á sunnudaginn og sögðu m.a.: „Margsannað er að bönn eru ekki til neins meðan fólkið okkar vill ekki fara eftir þeim. Áfengisbannið í Bandaríkjunum og á Íslandi sýndu að ógjörningur var að útrýma áfenginu. Reynsla margra annarra landa sýnir að ólöglegum ávanaefnum verður heldur ekki útrýmt. Vaskasta framganga tollþjónustu og ávanaefnalögreglu kemur aðeins 5-10% ólöglegra ávanaefna í hendur yfirvalda. Oftrú á strangan lagabókstaf og framfylgni hans er slæm, þegar fengist er við svarta ávanaefnamarkaði. Slík trúarbrögð hafa alvarlega ókosti: Glæpahneigð vex, kostnaður við löggæslu margfaldast og heilsufari ávanaefnaneytenda hrakar. Við verðum að gera þær kröfur til stjórnvalda að baráttan gegn notkun og skaðsemi ávana- og fíkniefna hafi ekki fleiri fylgikvilla (ókosti) en efnin sjálf.“

Vonandi er þetta til marks um að umræða um þessi mál fari batnandi og einkennist síður af þeim tilfinningaþrungnu upphrópunum sem oftast hafa ráðið ferðinni. Þeir sem styðja fíkniefnabannið hljóta nú að svara málefnalega þeim rökum sem lögð hafa verið fram gegn banninu. Ef tekið er mið af því hve óumdeilt bannið hefur verið og þeir taldir einkennilegir sem efast hafa um réttmæti þess ætti það að reynast létt verk fyrir stuðningsmenn bannsins.