Þriðjudagur 27. júní 2000

179. tbl. 4. árg.

Deilan er nú í höndum ríkissáttasemjara – er ekki óalgeng setning úr fréttum. Einnig þykir mjög sniðugt að segja frá því í fréttum þegar samningalotur eru svo langar í karphúsinu hjá ríkissáttasemjara að bera þarf inn fleiri kíló af kaffi og bakkelsi fyrir samningamenn og allt útlit er fyrir að fundir muni standa til morgun enda deilan í hörðum hnút. Ýmsum tekst þó að semja án atbeina ríkissáttasemjara. Þetta gera margir launþegar og vinnuveitendur og einnig hafa sumir kaupmenn, rakarar, bakarar og fleiri komist upp á lag með að bjóða fólki vöru og þjónustu á ásættanlegu verði fyrir neytendur. Hinir, sem tekst það ekki, snúa sér að einhverju öðru en ættu auðvitað ekki síður rétt á fæði og húsaskjóli hjá sáttasemjurum ríkisins en þeim sem tekst ekki að semja um verð á rútubílaakstri. Bændasamtökin gerðu þetta fyrir löngu þegar útséð var um að neytendur hefðu áhuga á að greiða ásættanlegt verð fyrir vöruna sem sauðfjárbændur bjóða. Svo gæfulega tókst til með þá milligöngu ríkisvaldsins að nú eru bændur víst tekjulægsta stétt landsins.

Og það er eins með þetta embætti ríkissáttasemjara og svo mörg önnur á vegum ríkisins að sú spurning vaknar hvernig menn fóru að áður en embættið var stofnað. Voru ósáttir menn um allan bæ? Þeir sem semja án aðstoðar ríkissáttasemjara spyrja einnig hvers vegna þeir þurfi að niðurgreiða kostnað við samningaþref þeirra sem geta ekki komið sér saman um kaup og kjör.

Vef-Þjóðviljinn hefur margsinnis getið um mikilvægi þess að nýting náttúruauðlinda sé í höndum einstaklinga og frjálsra félaga á þeirra vegum. Skynsamleg nýting er háð því að verð myndist á auðlindinni og mismunandi nýtingarmöguleikum hennar. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra lýsti því yfir í fréttum Stöðvar 2 í gær að hann vildi selja helming hinna 516 ríkisjarða á næstu árum enda séu þær betur komnar í eigu einstaklinga en ríkisins.