Fimmtudagur 29. júní 2000

181. tbl. 4. árg.

Ef marka má nýja rannsókn sem birt er í Journal of the Institute of Economic Affairs kostar landbúnaðarstefna Evrópusambandsins veröldina 5-6 þúsund milljarða króna (5.000.000.000.000 kr. – 6.000.000.000.000 kr.) á ári hverju. Rúmlega þriðjungur þessarar upphæðar leggst á önnur ríki en Evrópusambandsríkin. Þetta stafar af því að ESB hefur takmarkað innflutning matvæla auk þess að niðurgreiða afurðir eigin framleiðenda. Þeir sem helst verða fyrir barðinu á landbúnaðarstefnu ESB eru bændur annarra ríkja sem fæstir eru of sælir af kjörum sínum. Landbúnaðarstefna ESB dregur úr mjólkurútflutningi þessara landa um allt að 91% og kjötútflutningi um allt að 67% miðað við það sem væri ef markaðsöflin fengju að ráða ferðinni. Væri gert ráð fyrir óbeinum kostnaði vegna landbúnaðarstefnunnar, svo sem lægri framleiðni, er talið að kostnaðurinn af stefnunni yrði allt að 20% hærri.

Á Íslandi hefur verið reynt að áætla þann kostnað sem landbúnaðarkerfið leggur á Íslendinga, en ekki er auðvelt að finna hina einu réttu tölu í þessu sambandi, því eins og svo oft með ríkisafskipti eru afleiðingarnar meira og minna ósýnilegar. Þó má í ljósi þessara áætlana skjóta á – augljóslega mjög gróflega – að kostnaður vegna kerfisins hér á landi fyrir Íslendinga sé tíu til tuttugu milljarðar króna á ári. Þá á eftir að gera ráð fyrir þeim kostnaði sem kerfið leggur á bændur erlendis, sem margir hverjir eru afar fátækir, en það eru nokkrir milljarðar ef hlutfallið er svipað og hjá ESB.

Íslendingar og aðrar þjóðir gefa dálítið fé til þróunarstarfs í heiminum og til að reyna að hjálpa fólki upp úr örbirgð. Slík hjálp hefur oft á tíðum afar takmörkuð áhrif og stundum engin eða jafnvel neikvæð. Besta hjálpin sem hægt væri að veita fólki í þróunarríkjunum væri að eiga við það viðskipti. Með því að hætta að niðurgreiða íslenskar landbúnaðarafurðir er hægt að slá að minnsta kosti þrjár flugur í einu höggi; í fyrsta lagi hjálpa fátæku fólki í þróunarríkjunum, í annan stað spara skattgreiðendum á Íslandi stórfé á hverju ári og í þriðja lagi losa íslenska bændur úr viðjum kerfisins og tryggja að það sem þeir taka sér fyrir hendur, hvort sem það er búskapur eða annað, verði þeim og öðrum að gagni.