Föstudagur 23. júní 2000

175. tbl. 4. árg.

Furðulegt samkomulag hefur náðst milli leiðtoga Evrópusambandsríkjanna um bann við bankaleynd í löndunum. Austurríkismenn voru tregir til að taka þátt í þvílíku samkomulagi enda eru handhafabankabækur eðlilegur hluti í fjármálalífi landsins og réttur til þeirra stjórnarskrárvarinn. Þó tókst að lokka Austurríkissmenn til fylgis við hugmyndina gegn því að pólitískum ofsóknum á hendur þeim af hálfu flestra hinna ríkjanna myndi linna en Austurríki hefur þurft að þola hefndaraðgerðir ESB vegna lýðræðisins í landinu.

Samkomulagið er furðulegt fyrir tvennt. Annars vegar fyrir mjög svo loðið orðalag, eða eins og Jose Maria Aznar forsetisráðherra Spánar orðaði það þá er um að ræða opinn lokasamning, æði margbrotinn og fullan af ýmsum hugdettum. Leikmaður utan ESB kemst þannig ekki hjá því að velta því fyrir sér af hverju þessir skriffinnar ESB eru alltaf að semja um eitthvað sem enginn virðist hafa áhuga á að semja um. Hitt atriðið sem vekur furðu er að samningsaðilum virðist ekki nóg að hafa pínt sjálfa sig í vitleysuna því þeir skilyrða samkomulagið því að ýmis þriðju ríki muni líka afnema sína bankaleynd. Ætli þessir samningaóðu embættismenn ESB haldi virkilega að þeir sem æskja bankaleyndar muni bara sí svona sætta sig við þetta samkomulag og ekki leita á önnur mið með sitt fjármagn?

Það er reyndar ólíklegt að þetta samkomulag verði nokkurn tímann að veruleika. Spænska dagblaðið El Pais sér a.m.k. fernt sem hindrað getur framgang þess. Í fyrsta lagi þarf að koma þessu óræða samkomulagi í tillögu að tilskipun en þau átök munu eiga sér stað í desember þegar menn setjast aftur við samningaborðið og nú við það semja um hvað í samkomulaginu felist. Í öðru lagi munu ESB ríkin halda að sér höndum þar til staðfesting hefur verið fengin fyrir því að önnur ríki fylgi fordæmi þeirra. M.ö.o. á eftir að semja við fjöldan allan af ríkjum, þ.á m. við Bandaríkin og Sviss. Í þriðja lagi þarf að loknum sjö ára aðlögunartíma að fara fram enn ein atkvæðagreiðslan um málið. Og einróma samþykki þarf úr öllum þessum atkvæðagreiðslum. Í fjórða lagi er það svo talinn hugsanlegur Þrándur í Götu að Austurríki þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytingu  til að málið nái fram að ganga. Það verður fróðlegt og jafnvel skemmtilegt að fylgjast með hvernig til tekst. Þangað til ætti Ísland að skapa sér alvörustöðu á alþjóðlegum fjármálamarkaði og draga inn í landið erlent fjármagn með því að bjóða örugg bankaviðskipti þar sem ekki er hægt að vaða í upplýsingar um sparifjáreigendur.