Fimmtudagur 22. júní 2000

174. tbl. 4. árg.

Enn á ný vísar G. Pétur Matthíasson deildarstjóri innheimtudeildar Ríkisútvarpsins í bréf frá 1977 frá þáverandi menntamálaráðherra, Vilhjálmi Hjálmarssyni, þegar hann er inntur eftir því hvers vegna hann og aðrir starfsmenn RÚV greiði ekki afnotagjöld eins og lög kveða skýrt á um. Í bréfinu þykist ráðherrann veita starfsmönnum RÚV undanþágu frá lögum þótt engar slíkar undanþágur sé leyfðar í lögunum. Ef að G. Pétur hefði bréf frá ráðherra um að starfsmenn innheimtudeildar RÚV mættu liggja á gluggum hjá fólki og beita blekkingum og ofbeldi til að komast inn á heimili fólks myndi hann telja það eðlilegt? Æ, þetta var nú ekki gott dæmi. Hvað ef starfsmenn RÚV mættu samkvæmt bréfi frá ráðherra taka þá bíla traustataki sem þeim litist best á hverju sinni?

Stundum er látið í það skína að aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum og hlýnun í kjölfarið séu óhrekjanleg staðreynd. Þessu eru ekki allir sammála. Til dæmis má nefna þá 17.100 vísindamenn sem undirritað hafa eftirfarandi áskorun til stjórnvalda í Bandaríkjunum: „Við hvetjum ríkisstjórn Bandaríkjanna til að hafna Kyoto samkomulaginu sem gert var í desember 1997 og öðrum áþekkum tillögum. Samkomulagið er slæmt fyrir umhverfið, hægir á vísinda- og tækniframförum og getur valdið heilsu og velferð fólks skaða. Engar haldgóðar vísindalegar staðreyndir benda til þess að útblástur koltvísýrings, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda af manna völdum valdi eða muni valda í næstu framtíð hörmulegum breytingum á andrúmsloftinu. Að auki bendir margt til þess að aukinn styrkur koltvísýrings á andrúmsloftinu geti verið hagstæður fyrir plöntur og dýr.“

Í gær ritaði Þór Jakobsson veðurfræðingur grein í DV þar sem hann sagði: „Veðurfar breyttist til og frá löngu fyrir daga mannsins. Áhugi vísindamanna á náttúrulegum áhrifum og sveiflum hefur aukist síðustu ár, svo sem áhrifum gosefna sem berast um lofthjúpinn eftir mikil eldgos. Síðast en ekki síst beinist athygli vísindamanna á ný að sólinni okkar gömlu sem mestu ræður um upphaf og endi. Auðvitað stjórnar hún þessu mestan part þegar til kemur og býr í haginn fyrir lífið á jörðinni. En sú spurning hefur vafist fyrir vísindamönnum hvort geislun sólar breytist frá einni öld til annarrar, jafnvel örlítið, en nóg til að valda breytingum á veðurfari á jörðinni. Nú hefur gervihnöttur einn svifið um ofan við lofthjúpinn í tvo áratugi og safnað nákvæmum mælingum á geislunarorku sólar. Fyrstu rannsóknir benda til að sólin sé ekki í jafnmiklu jafnvægi og menn hafa haldið. Kannski mun hún reynast eiga heiðurinn af hlýnandi veðurfari en ekki drulla úr mannheimi.“