Miðvikudagur 21. júní 2000

173. tbl. 4. árg.

Ef að einhver samtök hafa farið erindisleysu að undanförnu eru það Náttúruverndarsamtök Íslands. Samtökin æmtu og skræmtu gegn fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum á Eyjabökkum sem reyndist svo ekki hagkvæmt að fara í og sjálfhætt var við.

Nú vekja samtökin athygli á því í fréttatilkynningu að í skýrslu norska ríkisfyrirtækisins Norsk Hydro um umhverfismál segir: „Greenhouse gas emissions will be a key consideration for all further investments and new products. Energy efficient operations and new technology are prerequisites for substantial greenhouse gas reductions, Hydro is evaluating cost-effective, company-wide reduction programs.“ Þetta telja Náttúruverndarsamtök Íslands stangast á við fyrirhugað álver á Reyðarfirði þar sem álverið losi gróðurhúsalofttegundir en Norsk Hydro er hluthafi í Reyðaráli.

Þetta álver mun þó ekki losa nema brot af þeim gróðurhúsalofttegundum sem sambærilegt álver t.d. í Kína sem knúið væri orku frá kolum myndi gera. Ef að Norsk Hydro ætlar að standa í álframleiðslu á annað borð og hafa lágmörkun útblásturs gróðuhúsalofttegunda sem megin viðmiðun um nýjar framkvæmdir getur fyrir tækið ekki valið betri orkugjafa en íslensk fallvötn. Náttúruverndasamtök Íslands (það vantar annars aldrei sjálfumgleðina í nafngiftir umhverfisverndarsinna á eigin samtökum og oft virðist hún nægja til að sannfæra fjölmiðlafólk að um trúverðug samtök sé að ræða) eru ekki betri en svipuð ofstopasamtök græningja annars staðar. Þau hika ekki við að halda ósannindum að fólki.