Þriðjudagur 20. júní 2000

172. tbl. 4. árg.

Þeir sem berjast fyrir því að ríkið haldi áfram að reka sjónvarp og útvarpsstöðvar á Íslandi, hafa ekki úr mörgum rökum að velja sér til framdráttar. Þau sem helst hafa verið notuð og skilað hafa mestum árangri, eru að opinberir fjölmiðlar séu nauðsynleg öryggistæki. Ef alvarlegir atburðir verði, þá sé nauðsynlegt að einhvers staðar séu ábyrgðarfullir fjölmiðlar sem setji öryggi almennings á oddinn.

Nú á laugardaginn urðu miklir jarðskjálftar á Suðurlandi. Jörð skalf og rifnaði, grjót hrundi úr fjöllum, veggir sprungu og tugir íbúðarhúsa urðu ónýtir í einni svipan. Fólk hefst nú við í tjöldum. Íbúar urðu skelkaðir og örvæntu um sig og sína. Vofðu fleiri skjálftar yfir? Hvernig átti að bregðast við? Hvað var að gerast?

Skelkaðir Sunnlendingar gerðu það eina rétta, þeir kveiktu á hljóðvarpi Ríkisútvarpsins en því miður var FM sendir öryggistækis allra landsmanna óvirkur eftir skjálftann. Þá lá beinast við að kveikja á Ríkissjónvarpinu til að fá óbrenglaðar upplýsingar, rétta mynd af stöðunni óháða hagsmunum einkaframtaksins. Og þar var stöðug útsending fyrstu klukkutímana eftir skjálftana. Ríkissjónvarpið stóð vaktina og sendi látlaust út fótboltaleik Portúgals og Rúmeníu. Eftir langa mæðu kom texti á skjáinn þess efnis að hálftíma síðar yrði gert stutt hlé. Það hlé varð örstutt og svo hélt leikurinn áfram. Í hálfleik voru auglýsingar enda er Ríkissjónvarpið óháð duttlungum auglýsenda. Eftir leikinn var þess getið að nú mætti engan tíma missa – og sjónvarpsmönnum lá svo á að þeir gáfu sér varla tíma til að endursýna sigurmark Portúgals – því mikið lá við.
Kappaksturinn var nefnilega byrjaður. Bein útsending frá Formúlu eitt.