Mánudagur 19. júní 2000

171. tbl. 4. árg.

Ólafur Örn Haraldsson þingmaður Framsóknarflokksins hefur lýst því yfir að það sé verið að afnema „jafnan rétt“ manna til náms með því að innheimta gjöld upp á 1.250 þúsund krónur fyrir MBA nám við Háskóla Íslands. Hann hefur ekki gert athugasemdir við að nemendur í öðru námi við HÍ greiði um 27.000 krónur sem m.a. annars fela í sér félagsgjöld í sértrúarsöfnuðinn Stúdentaráð Háskóla Íslands. Afnám á jafnrétti til náms við Háskóla Íslands liggur því einhvers staðar á þessu bili 27 – 1.250 þúsund, að mati þingmannsins. Gott væri að þingmaðurinn upplýsti nákvæmlega hvar hinn „jafni réttur“ glatast. Er það við 27.001 krónu, 127.325 krónur, 573.921 krónu eða 1.249 þúsund krónur?

Og þegar þingmaðurinn hefur sagt okkur við hvaða krónutölu hann miðar þegar „jafn réttur“ til náms er annars vegar hvernig væri þá að snúa sér að öðrum hlutum. Nýr bíll er mikið þarfaþing en kostar ekki undir 1 milljón króna. Hvað telur þingmaðurinn að skattgreiðendur eigi að taka stóran hlut á sig til að tryggja „jafnan rétt“ manna til að fá sér bíl? Eða er það ef til vill undarleg hugsun að „jafn réttur“ manna til að fá sér bíl hafi verið skertur ef almenningur leggur ekki fram fé í bílakaupin? Matur er líka mikilvægur, jafnvel mikilvægari en háskólanám, og því liggur beint við að jafn réttur manna til að matast sé tryggður og enginn þurfi að greiða fyrir matinn sinn. A.m.k. ekki meira en Ólafur Örn úrskurðar að sé hæfilegt til að tryggja jafnan rétt til matar.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur endurbætt heimasíðu sína. Það er auðvitað að finna margar skemmtilegar skoðanir og annan fróðleik en ekki er myndasafnið síðra. Í þessu myndasafni prófessorsins er m.a. að finna þessa mynd sem hann kallar „Með nokkrum skoðanabræðrum 1997“ en á myndinni með Hannesi eru Ólafur Björnsson, Benjamín Eiríksson og Jónas H. Haralz. Séð og heyrt lét taka myndina og birti hana undir fyrirsögninni „Landsliðið í hagfræði!“.