Helgarsprokið 18. júní 2000

170. tbl. 4. árg.

Murray N. Rothbard (1926-1995)
Murray N. Rothbard (1926-1995)

Undanfarin misseri hafa menn vænst þess að svonefnd verðbólga fari lækkandi og ef til vill voru fyrstu merki um það í breytingum á vísitölu neysluverðs í síðasta mánuði þótt einn mánuður segi litla sögu. Það kemur ekki á óvart að litið er til hækkandi olíuverðs og fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem helstu skýringa á verðbólgunni. En verðbólga á sér aðra skýringu. Hér í Vef-Þjóðviljanum var vikið að því í haust, í tilefni af því að 60 ár voru liðin frá Svarta fimmtudeginum 29. október 1929 á Wall Street, hvaða áhrif seðlaprentun og handaflsstýring á vöxtum hefur í för með sér. Var sagt frá kenningum austurrísku hagfræðinganna, m.a. Murray Rothbard, um þetta efni. Þar sagði m.a.: „Bandaríski hagfræðiprófessorinn Murray Rothbard (sem var nemandi Mises) rannsakaði peningamál á þriðja áratugnum í Bandaríkjunum. Hann komst að þeirri niðurstöðu, m.a. í bók sinni America’s Great Depression, að af ýmsum ástæðum hafi peningamagn verið aukið um 70% á árunum 1921 til 1929. Ein ástæðan var sú einbeitta stefna Calvin Coolidge, sem var forseti 1923 – 1929, að halda vöxtum lágum. Hinir svonefndu peningamagnssinnar með Milton Friedman í broddi fylkingar eru ekki sammála austurrísku hagfræðingunum um þetta og benda á að engin verðbólga hafi mælst í Bandaríkjunum á þriðja áratugnum eftir hefðbundnum mæliaðferðum þótt þeir viðurkenni að vöxtum hafi verið þrýst óeðlilega niður. Til dæmis hafi neysluverðsvísitala ekki hækkað. Austurrísku hagfræðingarnir benda hins á að þegar verð á húsnæði og hlutabréfum er tekið með í reikninginn komi verðbólgan í ljós. Hluta af verðbólgunni hafi einnig verið haldið niðri með þeirri miklu framleiðniaukningu sem átti sér stað á þessum árum vegna nýrrar tækni og aukinnar verkaskiptingar.
Austurrísku hagfræðingarnir og peningamagnssinnarnir eru hins vegar sammála um að rangt hafi verið brugðist við kreppunni. Seðlabankinn hafi haldið að sér höndum þegar viðskiptabankar riðuðu til falls en seðlabankinn hafði einmitt verið stofnaður sem öryggisventill fyrir banka sem lentu í tímabundnum erfiðleikum vegna skyndilegra „áhlaupa“ frá innistæðueigendum. Áður en seðlabankinn var stofnaður höfðu einkareknir bankar leyst slík áhlaup farsællega með samstarfi sín á milli og komið í veg fyrir keðjuverkandi hrun. Í Kanada var enginn seðlabanki á sama tíma og ekkert bankahrun varð þótt Bandaríkin væru aðalútflutningsmarkaður Kanada.“

Ástæðan fyrir því að þetta er rifjað upp hér auðvitað að minna á að verðbólga er fyrst og fremst afleiðing aukinnar seðlaprentunar en einnig til að geta þess að America’s Great Depression eftir Rothbard er nú fáanleg á ný en bókin hefur verið uppseld um nokkra hríð. Í þessari nýju útgáfu frá Ludwig von Mises Institute er formáli eftir sagnfræðinginn Paul Johnson þar sem hann segir að sér þyki sagnfræðingar ekki hafa gert ástæðum Kreppunnar miklu nægileg skil. Johnson segir svo: „Sá sem að mínu mati hefur komist næst því að skýra kreppuna á viðunandi hátt er Murray N. Rothbard í America’s Great Depression. Í hálfa öld stóðu menn í þeirri trú að skýringar John Maynard Keynes og fylgismanna hans væru réttar þ.e. að kapítalisminn hefði verið ófær um að bjarga sjálfum sér og ríkið hefði aðhafst of lítið til að bjarga kapítalismanum. Þessi skýring varð þó sífellt ótrúverðugari eftir því sem árin liðu og Keynesisminn sjálfur naut minna álits. Árið 1963 setti Rothbard fram skýringar sem voru öndverðar viðteknum skýringum. Hrunið á Wall Street var ekki óheftum kapítalisma að kenna heldur tilraunum ríkisins til að halda góðærinu gangandi með seðlaprentun. Hrunið var ekki of litlum ríkisafskiptum að kenna heldur of miklum.“

Og Johnson heldur áfram: „Þökk sé Rothbard þá sjáum við nú að stjórnarár Hoover [sem var ráðandi um efnahagsstjórn forvera sinna í forsetaembætti þeirra Harding og Collidge] og Roosevelt voru í raun samfella. Flestar aðgerðirnar sem gripið var til undir heitunu New Deal voru framhald á þeim aðgerðum sem Hoover greip til. Stjórn Roosevelt var einungis frábrugðin stjórn Hoovers að tvennu leyti: Hún sinnti áróðursmálum betur og eyddi heldur meiru. Að mati Rothbard var það rökrétt afleiðing þessarar stefnu að niðursveiflan varð dýpri en ella og stóð til loka fjórða áratugarins.“ Johnson segir að Coolidge hafi verið andvígur auknum ríkisumsvifum sem Hoover hafi beitt sér fyrir og hafi sagt um Hoover: „Í sex ár hefur þessi maður óumbeðinn veitt mér ráð sem öll hafa reynst illa.“