Laugardagur 24. júní 2000

176. tbl. 4. árg.

Í síðasta mánuði fjallaði Vefþjóðviljinn nokkuð um frumvarp það til laga um fæðingarorlof, sem þá var af óbilgirni og með eftirminnilegum hætti keyrt í gegnum Alþingi. Vefþjóðviljinn gagnrýndi margt í frumvarpinu, meðal annars ótrúlegan kostnað sem af því mun hljótast, gríðarlega misnotkunarmöguleika, ógeðfellda forræðishyggju og það hvernig frumvarpshöfundar létu sig ekki muna um að mismuna börnum eftir heimilisaðstæðum.

Eins og menn vita voru hörðustu stuðningsmenn frumvarpsins á þingi staðráðnir í því að leyfa hvorki umræður um frumvarpið né nokkrar minnstu breytingar á því. Var það því samþykkt með öllum sínum göllum og gert að lögum sem – ef ekkert verður að gert – koma til framkvæmda á næsta ári. Reyndar leyfir Vefþjóðviljinn sér að vona, að vitibornir þingmenn sjái að sér og láti trúflokkinn sem barði frumvarpið í gegn ekki villa sér sýn öllu lengur en breyti hinum nýsamþykktu lögum strax í haust.Hinir og þessir hafa þegar áttað sig á ýmsum af göllum frumvarpsins. Meira að segja BHM., Bandalag háskólamanna, bendir á í nýju fréttabréfi að nýju lögin mismuna börnum eftir fjölskylduaðstæðum þeirra. Lögin búa sem kunnugt er verr að börnum einstæðra foreldra en öðrum börnum og var það meðal þess sem frumvarpshöfundar vildu alls ekki að yrði breytt.

Vitað er að erfitt verður að fá hinum ógeðfelldu lögum breytt nú í haust. Skiptir þar mestu máli að áhrifamiklir stuðningsmenn þess eru staðráðnir í að taka engum rökum í málinu og reyna að þegja alla umræðu í hel. Þess vegna er mikilvægur hver sá sem vekur máls á einhverjum hinna næstum óteljandi galla við nýju lögin og því ber að fagna ábendingu fréttabréfs BHM. Og það eins þó að höfundur greinar blaðsins telji að fallist hafi verið á margar helstu kröfur sínar og deili ekki með Vefþjóðviljanum áhyggjum af öðrum þáttum laganna, svo sem kostnaðinum og skattahækkununum sem þeim fylgja. En við því var kannski ekki að búast.